Innlent

Komin með ellefu lóuhræ og vonast eftir fleirum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Elísa Skúladóttir með lóuhræin.
Elísa Skúladóttir með lóuhræin.
Elísa Skúladóttir, meistaranemi í líffræði, hefur á undanförnum dögum unnið að því að safna lóuhræjum. Hún er nú komin með ellefu stykki í hendurnar og vonast eftir að fá fleiri sem hún mun svo kryfja og nýta í rannsóknir.

Líklega fyrsta rannsókn sinnar tegundar

„Ég veit ekki til þess að lóur hafi verið kannaðar með þessum hætti. Þær hafa verið merktar með fótmarki en þetta hefur ekki verið gert áður að mér vitandi allavega,“ segir Elísa í samtali við Vísi.

Lóan hefur lítið verið rannsökuð enda alfriðuð. Elísa sá sér því leik á borði þegar fregnir bárust af undarlegu hátterni lóunnar og óskað eftir hræjum á Facebook. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hefur hún vart haft undan við að sækja hræin, langflest á höfuðborgarsvæðinu en nokkur á Suðurnesin.

Sumar lóurnar voru teknar af köttum, segir Elísa.
„Ég er ekki viss hvernig flestar af þeim drápust en ég veit að sumar voru teknar af köttum. Þá er möguleiki að sumar hafi drepist úr kulda. Það er eitthvað sem hægt væri að sjá. Svo þætti mér gaman ef ég gæti fundið eitthvað efni erlendis frá um sambærilegar rannsóknir, þá gæti ég til dæmis borið saman líkamsstuðul þeirra,“ segir hún.

Hvert hræ verðmætt

Elísa vinnur nú að meistaraverkefni sínu í líffræði en það snýr meðal annars að því að kanna búsvæðaval lóu utan varptíma. Rannsókn þessi kemur því líklega til með að nýtast henni vel að sögn leiðbeinanda hennar, Gunnars Þórs Hallgrímssonar.

„Það er erfitt að fullyrða hvað þetta mun segja okkur. En með því að hafa hræ af fuglum fáum við upplýsingar sem stundum er ekki hægt að fá á annan hátt, til dæmis hvernig fita safnast saman í mismunandi vefjum í líkamanum og aðrir mikilvægir þættir. Þegar maður er með friðaða tegund eins og lóuna þá er hvert hræ verðmætara, samanborið við það ef þú skoðar til dæmis máv eða gæs,“ segir Gunnar.

Lumi einhver á lóuhræi fyrir Elísu er hægt að hafa samband við hana í síma 693 4358.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×