Innlent

Kom ríkissaksóknara ekki á óvart

Sveinn Arnarsson skrifar
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í endurupptökumálinu
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í endurupptökumálinu
Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í endurupptökumáli Guðmundar- og Geirfinnsmála, segir niðurstöðu nefndarinnar ekki hafa komið sér á óvart. Nú væri hinsvegar mikilvægt að fara vel yfir stöðuna og meta næstu skref í málinu.

„Hafa ber í huga að ákvörðun endurupptökunefndarinnar er í eðli sínu stjórnvaldsákvörðun. Því gæti farið svo að ákvörðun nefndarinnar um endurupptöku verði á einhvern hátt skotið til Hæstaréttar. Það er hinsvegar mikilvægt að skoða málið í þaula,“ segir Davíð Þór.

„Hver svo sem verður ríkissaksóknari í málinu, ég eða einhver annar, mun þurfa að vega og meta fjölmörg atriði. Einnig gæti komið til greina hvort hægt væri að fella niður ákærur í einhverjum liðum. Ég ítreka hinsvegar að ég hef ekki skoðað málið ofan í kjölinn en ríkissaksóknari mun þurfa þess á næstu vikum,“ bætir Davíð Þór við.

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður hefur gætt hagsmuna Sævars Ciesi­elski og Tryggva Rúnars Leifssonar í endurupptökuferlinu. Hann segir næstu skref að rannsaka málið frekar til að hið sanna komi í ljós.

„Að mínu mati tel ég mikilvægt að teknar séu skýrslur af þeim lögreglumönnum sem unnu við rannsókn málsins og komu að málinu,“ segir Lúðvík „Það mun taka einhvern tíma en boltinn er nú hjá ákæruvaldinu. Hinsvegar er ánægjulegt að á þessum tímapunkti sé komin þessi skýra afstaða um endurupptöku málsins.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×