Erlent

Kólumbíustjórn og Farc-liðar samþykkja að leggja niður vopn

Atli Ísleifsson skrifar
Marcos Calarca, fulltrúi Farc-liða, og Marcela Duran, fulltrúi sendinefndar Kólumbíustjórnar, ræddu við fjölmiðla fyrr í dag.
Marcos Calarca, fulltrúi Farc-liða, og Marcela Duran, fulltrúi sendinefndar Kólumbíustjórnar, ræddu við fjölmiðla fyrr í dag. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Kólumbíu og leiðtogar uppreisnarhópsins Farc hafa náð samkomulagi og samþykkt að leggja niður vopn. Sögulegar friðarviðræður deiluaðila hafa staðið yfir í kúbönsku höfuðborginni Havana síðastliðin þrjú ár.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá því fyrr í dag segir að samkomulag hafi náðst um tvíhliða vopnahlé og atriði er snerta afvopnun, en nákvæm atriði samkomulagsins verða gert kunn á morgun.

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, hefur sagt að endanlegur friðarsamningur verði undirritaður þann 20. júlí næstkomandi.

Átök hafa staðið milli kólumbískra stjórnvalda og uppreisnarmanna Farc í um hálfa öld og er áætlað að um 220 þúsund manns hafi fallið í þeim og um sjö milljónir manna neyðst til að leggja á flótta.

Í frétt BBC segir að búið sé að ná samkomulagi um atriði sem snerta uppbyggingu á landsbyggðinni þar sem Farc-liðar hafa verið áberandi, hvernig taka skuli á ólöglegri fíkniefnasölu, stjórnmálaþátttöku Farc-liða og hvernig skuli taka á brotum sem framin voru á stríðstímum.

Friðarsamningurinn verður kynntur til sögunnar á morgun. Auk Santos forseta og Timoleon Jimenez, leiðtoga Farc, munu Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Raul Castro Kúbuforseti, Michele Bachelet Chileforseti og Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sækja fundinn.


Tengdar fréttir

Opinskár fundur á Kúbu

Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi mannréttindamál við Raul Castro, ­forseta Kúbu, í gær. Meirihluti Bandaríkjamanna styður bætt samskipti ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×