Erlent

Koltvísýringslosun nær óbreytt þriðja árið í röð

Kjartan Kjartansson skrifar
Rúmlega 32 milljarðar tonna koltvísýrings voru losaðir við orkuframleiðslu í heiminum á síðasta ári.
Rúmlega 32 milljarðar tonna koltvísýrings voru losaðir við orkuframleiðslu í heiminum á síðasta ári. Vísir/EPA
Ríki heims losuðu svipað magn koltvísýrings út í lofthjúp jarðar á síðasta ári og síðustu tvö árin á undan. Ný skýrsla Alþjóðaorkumálastofnunarinnar sýnir að hagvöxtur á heimsvísu jókst þrátt fyrir að koltvísýringslosunin hafi staðið í stað.

Alls nam losun gróðurhúsalofttegundarinnar frá orkuframleiðslu 32,1 milljarði tonna á síðasta ári. Það er svipað magn og losað var árin 2014 og 2015. Á sama tíma óx hagkerfi heims um 3,1%. Þetta þykir til marks um að hagkerfi ríkja heims séu að verða minna háð jarðefnaeldsneyti en áður.

Stöðunin í losun er meðal annars tilkomin vegna þess að losun Bandaríkjamanna og Kínverja dróst saman um 3% og 1,6% og í Evrópu var losun óbreytt þó að önnur ríki hafi aukið útblástur sinn.

Í skýrslunni kemur einnig fram að endurnýjanlegir orkugjafar hafi staðið undir meira en helmingi vaxtar í orkuframleiðslu árið 2016.

Ekki nóg að losunin fletjist út

Þrátt fyrir þessi góðu tíðindi fyrir umhverfið er losun manna á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni enn geigvænleg. Nýleg skýrsla bandarísku Haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) sýndi þannig að styrkur koltvísýrings í lofthjúpnum hafi aldrei aukist hraðar en nú, hundruð sinnum hraðar en eftir síðustu ísöld.

Ætli ríki heims sér að ná markmiði Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C á þessari öld, hvað þá innnan við 1,5°C eins og stefnt er að, er ekki nóg að losun gróðurhúsalofttegunda fletjist út heldur þarf að draga verulegar úr henni.

Í frétt Washington Post kemur fram að til að eiga raunhæfa möguleika á að ná 2°C-markmiðinu mega menn ekki losa meira en 800 milljarða tonna af koltvísýringi út í lofthjúpinn. Miðað við núverandi losun verður það svigrúm nýtt til fulls á aðeins aldarfjórðungi.


Tengdar fréttir

Styrkur koltvísýrings setur áfram met

Magn gróðurhúsalofttegundarinnar hefur vaxið hundrað til tvö hundruð sinnum hraðar síðasta áratuginn en þegar síðustu ísöld lauk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×