Handbolti

Kolding vann Ofurbikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Kristjánsson stýrði Kolding til sigurs í dag.
Aron Kristjánsson stýrði Kolding til sigurs í dag. Vísir/Getty
Lærisveinar Arons Kristjánssonar í KIF Kolding Kaupmannahöfn unnu sigur á Álaborg í leik um danska Ofurbikarinn sem fór fram í Gigantium í Álaborg.

Það var lítið skorað í leik kvöldsins. Kolding byrjaði betur og eftir 20. mínútna leik var staðan 10-4 þeim í vil. Heimamenn náðu að rétta sinn hlut fyrir leikhlé, en þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 11-7, Kolding í vil.

Norðmaðurinn Håvard Tvedten minnkaði muninn í 11-8 í byrjun seinni hálfleiks, en þá tóku Kolding-menn við sér, skoruðu þrjú mörk í röð og eftir 40 mínútur var staðan 14-8.

Liðsmenn Álaborgar gáfust hins vegar ekki upp og skoruðu fjögur mörk í röð. Þeir héldu svo áfram að þjarma að Kolding og þegar þrjár mínútur voru eftir minnkaði Emil Berggren muninn í eitt mark.

Simon Jensen jók muninn aftur í tvö mörk, en Berggren var ekki hættur og minnkaði muninn á ný. Liðsmönnum Álaborgar tókst hins vegar ekki jafna og Kolding fagnaði sigri, 17-16.

Aron og lærisveinar hans mæta Bjerringbro-Silkeborg í fyrsta leik sínum dönsku deildinni 30. ágúst á meðan Álaborg mætir Team Tvis Holstebro sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×