Fótbolti

Kolbeinn: Redknapp var áhugasamur um að fá mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson telur sig fá meira að spila með Ajax.
Kolbeinn Sigþórsson telur sig fá meira að spila með Ajax. vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherja í knattspyrnu, segist ekki vera að flýta sér frá meistaraliði Ajax í Hollandi, en Kolbeinn yfirgaf það ekki í sumar eins og til stóð.

„Ég ákvað að vera áfram hjá Ajax, mér fannst ég ekki þurfa að flýta mér og held ég fái góðan spiltíma núna. Svo sjáum við bara til hvað gerist á næsta ári,“ sagði Kolbeinn við fótbolti.net eftir æfingu landsliðsins í kvöld.

Enska úrvalsdeildarliðið QPR var endalaust orðað við kaup á Kolbeini, en það lagði fram tilboð í landsliðsmanninn. Kolbeinn viðurkennir að það hefði verið gaman að spila undir stjórn Harrys Redknapps.

„Harry Redknapp er skemmtilegur karakter og örugglega mjög góður þjálfari, það hefði örugglega verið gaman. Hann var áhugasamur um að fá mig, ég viðurkenni það alveg, en ég ákvað að vera áfram," sagði Kolbeinn Sigþórsson við fótbolti.net.

Kolbeinn æfði ekki í kvöld vegna smávægilegra meiðsla, en hann segist vera klár í slaginn fyrir fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2016 á þriðjudagskvöldið þegar Ísland mætir Tyrklandi á Laugardalsvellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×