Fótbolti

Kolbeinn er ekki týndur: Alrangt að Nantes viti ekki af mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. vísir/getty
Landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Nantes í Frakklandi, er staddur hér á landi og ræddi við íþróttadeild 365 í dag um meiðsli sín og framtíðarhorfur.

Í morgun bárust fréttir þess efnis frá Frakklandi að Waldemar Kita, forseti Nantes, hefði litlar sem engar spurnir fengið af Kolbeini eftir að samningi hans við tyrkneska félagið Galatasaray í lok desember.

Sjá einnig: Forseti Nantes um Kolbein: Hann vill ekki einu sinni fá borgað

Kolbeinn er á mála hjá Nantes en var í láni hjá tyrkneska félaginu í haust. En eftir að samningi hans við Galatasaray var rift í lok desember hélt hann heim á leið og hefur verið hér undanfarnar tvær vikur.

„Þeir vita af mér. Bróðir minn er í daglegu sambandi við Franck Kita [framkvæmdastjóra Nantes] og ég veit einfaldlega ekki hvaðan þessar fréttir koma. Að segja að ég sé týndur er alrangt,“ sagði Kolbeinn í viðtalinu.

Síðan í sumar hefur hann glímt við erfið hnémeiðsli og fór hann í aðgerð vegna þeirra þann 5. september. Kolbeinn sagði við íþróttadeild í dag að batinn hafi því miður ekki verið að óskum og að óvissa sé um framhaldið.

Útlit er fyrir að á næstu dögum fari hann í læknisskoðun hjá félaginu í Frakklandi og að ákvörðun verði tekin um framhaldið þá.

Kolbeinn neitar því ekki að óvissan er óþægileg en hann lýsir meiðslasögu sinni og framtíðarhorfum í ítarlegu viðtali sem birtist í Fréttablaðinu og Vísi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×