Fótbolti

Kolbeinn: Þetta lítur helvíti vel út

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson er bjartsýnn á að hann verði orðin nógu góður af hnémeiðslum sínum til að spila með Íslandi þegar EM hefst í Frakklandi eftir tvær vikur.

„Staðan er mjög góð. Ég er búinn að æfa vel og átti góða æfingaviku með sjúkraþjálfara,“ sagði Kolbeinn við Vísi í dag, fyrir æfingu íslenska liðsins á Bislett-leikvanginum í Ósló í dag.

„Þetta lítur bara helvíti vel út. Ég hef náð að byggja ofan á hvern dag og bætt á mig æfingum,“ sagði hann enn fremur.

Hann segir að óvissan hafi verið nokkur fyrir tveimur vikum síðan. „Þá pældi maður í öllum mögulegum útkomum en miðað við hvernig staðan er í dag þá get ég verið nokkuð bjartsýnn. Ég verð þó um leið að vera varkár og fara mér ekki of geyst.“

Kolbeinn er að berjast við að halda bólgu í hægra hnénu niðri og hann segir að það hafi hingað til brugðist vel við álagi.

„Ég er búinn að prófa það vel og það eru engir verkir, sem er mjög gott. Ég byggt mig 100 prósent upp og vonandi þarf ég ekki að taka jafn mikla sénsa nú og í síðustu viku. Vonandi heldur þetta og verður gott.“

Hann segir ómögulegt að segja hvort hann spili eitthvað með Íslandi í æfingaleikjunum tveimur fyrir EM.

„Við tökum engar áhættur ef ég þarf meiri tíma. En ég vona auðvitað að ég fái einhverjar mínútur. Það væri plús.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×