Fótbolti

Kolbeinn: Getum gengið stoltir frá borði og brosað fram að EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. vísir/getty
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins í fótbolta, var eðlilega súr eftir 1-0 tapið í Konya í kvöld þar sem Tyrkir tryggðu sér sigurinn með marki úr aukaspyrnu á 89. mínútu.

„Þetta var ódýrt aukaspyrna. Menn eru aðallega brjálaðir yfir því að fá þetta mark á sig,“ sagði Kolbeinn við Vísi beint eftir leik.

„Mér fannst við eiga þennan leik og vera betri í heildina. Það var alveg týpískt að fá þetta mark á sig undir lokin.“

Hann var sáttur með spilamennsku liðsins og vildi fá meira en ekkert stig. „Það kom okkur ekkert á óvart í spilamennsku Tyrkja. Við náðum að halda þeim frá okkur en við hefðum þurft að vera aðeins betri á síðasta þriðjungi vallarins,“ sagði Kolbeinn.

„Þeir komu fast aftan í bakið á manni en við tveir frammi hefðum getað gert betur. Í heildina fannst mér við spila vel og við vorum óheppnir að ná ekki í betri úrslit.“

Framherjinn er auðvitað hæstánægður með að vera kominn á EM og finnst það verðskuldað.

„Við vildum enda þetta vel og við gerðum það. Sem betur fer erum við komnir áfram og það eigum við líka skilið. Við höfum sýnt það í undankeppninni. Við vorum betri aðilinn í kvöld og getum gengið stoltir frá borði eftir þessa undankeppni. Við brosum bara fram að EM,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.


Tengdar fréttir

Ragnar: Algjört kjaftæði

Miðvörður Íslands var ekki ánægður með dóminn sem leiddi að sigurmarki Tyrklands í Konya í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×