Fótbolti

Kolbeinn: Flott að vera kominn í lið þar sem ég fæ traust

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði 31 mark í 80 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni fyrir Ajax.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði 31 mark í 80 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni fyrir Ajax. vísir/getty
„Þetta fór allt saman í gang rétt eftir landsleikinn gegn Tékkum,“ segir Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í fótbolta, í viðtali við Vísi um vistaskipti sín frá Ajax til Nantes í Frakklandi sem kláruð voru í dag.

„Það kom símtal frá Nantes sem sýndi mér mikinn áhuga og bauð mér út. Það vildi sýna mér aðstæður og segja mér hvað félagið ætlar að fara að gera. Ég ákvað bara að skella mér út og sjá hvernig þetta væri allt saman.“

„Mér leist svo bara frábærlega á þetta hjá þeim þannig ég fór í viðræður og það var endanlega gengið frá öllu í morgun þannig nú spila ég í Frakklandi,“ segir Kolbeinn sáttur.

Nantes er sögufrægt félag úr samnefndri borg í vesturhluta Frakklands sem unnið hefur Frakklandsmeistaratitilinn átta sinnum, síðast árið 2001.

„Þetta er lið sem búið er að vinna marga titla í Frakklandi og er eitt af þeim stóru sé litið til sögunnar. Þetta er flott félag sem vill byggja sig upp á nýtt og koma sér ofar,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn með gula treyju Nantes eftir undirskriftina.mynd/heimasíða nantes
Metnaðarfullur eigandi sem ætlar að eyða

Kolbeinn er einn af fyrstu leikmönnunum sem liðið kaupir eftir að það losnaði úr 16 mánaða félagaskiptabanni sem það var úrskurðað í fyrir ólögleg kaup á leikmanni.

Undanfarin ár hafa verið því erfið. Það kom upp úr 2. deildinni fyrir tveimur árum, lenti í 13. sæti 1. deildarinnar í fyrra og 14. sæti á síðustu leiktíð. Nú horfir til betri vegar með nýjum leikmönnum.

„Það hefur verið smá basl á klúbbnum en þeir eru með metnaðarfullan eiganda sem ætlar að splæsa almennilega í þetta. Þeir vilja byggja upp gott lið, ná langt og komast í Evrópukeppni eins fljótt og auðið er,“ segir Kolbeinn.

„Liðið gerði fína hluti síðustu tvö ár eftir að koma upp en nú er alvöru plan í gangi. Nantes er búið að kaupa þrjá leikmenn og ætlar að kaupa fleiri. Vonandi er bara eitthvað gott í spilunum.“

„Þetta er spennandi verkefni. Það sem heillaði mest er að talað var um að ég fengi að spila og yrði lykilmaður. Það er mikilvægt fyrir mig á þessum tímapunkti. Þetta er lið sem treystir mér fyrir sóknarleiknum. Á þessum tímapunkti hjá mér er þetta bara frábært tækifæri,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn heldur Andrés Iniesta fyrir aftan sig í leik í Meistaradeildinni.vísir/getty
Fer þarna til að skora

Kolbeinn er fjórfaldur Hollandsmeistari, næst markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi og hefur gengið í gegnum mörg erfið meiðsli. Hann hefur upplifað mikið en er aðeins 25 ára gamall.

Hann er spenntur fyrir þessu næsta skrefi og mætir til Frakklands til að skora mörk. Það er líka vonandi fyrir Nantes að Kolbeinn verði sá maður sem liðið vonast til því ekkert lið skoraði minna en Nantes í frönsku 1. deildinni á síðustu leiktíð; aðeins 29 mörk í 38 leikjum.

„Auðvitað fer ég þarna til að skora, en fyrst og fremst til að spila og koma mér í þann gír sem ég vill vera. Ég veit alveg að ef ég dett í ham á ég eftir að skora fullt af mörkum og að fá svona séns heldur öllu opnu varðandi framtíðina hvað varðar að komast í stærstu deildir Evrópu,“ segir Kolbeinn, en sá draumur lifir enn hjá framherjanum.

„Franska deildin er stór gluggi upp á að taka næsta skref. Það er skref sem ég hefði vissulega viljað taka fyrr, en þetta er stórt tækifæri sem ég fæ eftir erfið ár þar sem ég hef verið mikið meiddur.“

Kolbeinn varð fjórfaldur Hollandsmeistari með Ajax.vísir/getty
Endalaust svekkelsi

Kolbeinn kveður Ajax með 31 marki í 80 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði í öðrum hverjum leik að meðaltali fyrstu tvö árin þrátt fyrir mikil meiðsli en síðustu tvö ár hafa verið mjög erfið.

Á síðustu leiktíð spilaði hann 21 leik í deildinni, þar af kom hann þrettán sinnum inn á sem varamaður og skoraði sjö mörk.

„Þetta var endalaust svekkelsi,“ segir Kolbeinn um tímann hjá Ajax. „Ég get ekki hugsað til baka og minnst einhvers tímabils sem ég er fullkomlega sáttur við.“

„Kannski fyrir tveimur árum þegar ég kom til baka og var að skora og spila alla leikina. Þá var ég mjög mikilvægur liðinu. Það er svona jákvæðasti tíminn fannst mér.“

Kolbeinn á bekknum.vísir/getty
Skorar í sinni stöðu

Flestir töldu Kolbein á útleið fyrir síðasta tímabil en hann ákvað að vera áfram. Aðspurður hvort það hafi verið röng ákvörðun segir hann:

„Maður veit það náttúrlega aldrei fyrirfram. Mér fannst það skynsamlegasta ákvörðunin á þeim tímapunkti miðað við hvernig talað var við mig innan félagsins. Ég hélt að taka annað tímabil með Ajax gæti haldið öllu opnu en maður veit aldrei hvað gerist í þessu.“

Aðspurður hvort þessi síðustu tvö ár sérstaklega hafi verið bara tóm leiðindi segir Kolbein svo ekki vera, en hann var ekki í góðri stöðu.

„Þegar þú ert ekki að spila og ert framherji sem er settur á vinstri kantinn þá verðurðu létt pirraður. Ég þarf að spila mína stöðu og ef ég fæ að gera það veit ég að ég skora mörk,“ segir hann.

Kolbeinn Sigþórsson ætlar að skora mörk fyrir Nantes eins og hann gerði fyrir Ajax og gerir fyrir Ísland.vísir/afp
Opnar nýja möguleika

Framherjinn kveðst vera í frábæru formi og finnur ekki fyrir neinum meiðslum. Hann er í góðu standi og klár í slaginn með Nantes.

„Það er ekkert sem ætti að há mér þannig ég fer heill inn í undirbúningstímabilið sem er mjög mikilvægt fyrir mig,“ segir Kolbeinn sem var nýkominn aftur til Amsterdam þegar Vísir náði á hann.

„Ég er bara að pakka núna og svo fer ég aftur í flug til baka á morgun og svo beint í æfingaferð til Genf á sunnudaginn.“

Nýr kafli í fótboltasögu Kolbeins er nú að hefjast, en hvernig lítur hann á þessi félagaskipti?

„Mér finnst þetta klárlega vera skref fram á við fyrir mig. Þetta er stærri deild og er deild sem til dæmis England fylgist mjög vel með,“ segir Kolbeinn.

„Þetta opnar nýja möguleika fyrir mig og fyrst og fremst var bara mikilvægt fyrir mig að taka nýtt skref. Þetta er mikilvægt skref á mínum ferli og það er bara flott að vera kominn í lið þar sem ég fæ traust,“ segir Kolbeinn Sigþórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×