Innlent

Kókaínsmyglið í Sundahöfn enn óupplýst

Snærós Sindradóttir skrifar
Ólafur William Hand segir skipverja saklausa uns sekt sé sönnuð. Skipið sigli áfram þar til upplýsingar berist frá lögreglu.
Ólafur William Hand segir skipverja saklausa uns sekt sé sönnuð. Skipið sigli áfram þar til upplýsingar berist frá lögreglu. vísir/gva
„Við vonum auðvitað að þetta séu ekki okkar menn sem voru að standa í þessu,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. Í lok júní fundust tæp þrjú kíló af kókaíni í gámi í Sundahöfn sem komið hafði með skipi Eimskips, Skógafossi.

Skipverjar voru allir yfirheyrðir af lögreglu en enginn þeirra var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Enginn hefur stöðu grunaðs manns sem stendur. Skipið er nú á siglingu og ætti að vera í Argentíu á Nýfundnalandi í dag.

Aðspurður hvort það sé ekki íþyngjandi fyrir skipverja að allir og enginn sé grunaður segir Ólafur: „Það hlýtur að vera íþyngjandi ef þú ert sekur. En ef þú ert saklaus get ég ekki ímyndað mér að það hafi nein áhrif á þig.“

Hann segir að mikill fjöldi fólks komi að skipinu og hafi aðgang að farmi þess í hverri höfn. „Það er rosalega erfitt að benda á áhafnarmeðlim nema þú sért með óyggjandi sannanir fyrir því. Það er ekki öfundsvert fyrir lögregluna að rannsaka mál sem er svona óljóst.“

Aldís B. Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé enn í rannsókn. Aðspurð hvort málið sé tengt stærra fíkniefnamáli eða hafi verið einangrað smygl segir Aldís: „Við erum ekki komin með af eða á varðandi það.“

Uppfært

Í upphafi stóð að Skógafoss væri statt í Argentínu. Það er aftur á móti statt í Argentíu, sem er 450 manna bær á Nýfundnalandi. Það leiðréttist hér með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×