Skoðun

Knattspyrna og kristindómur

Þórir Stephensen skrifar
Sjónvarpsnotendur á Íslandi hafa að undanförnu notið þess að fylgjast með útsendingum frá HM í knattspyrnu, sem fram fer í Brazilíu um þessar mundir. Þetta er okkur flestum mikil skemmtun, en einnig fróðleikur um allt það regluverk, sem umlykur íþróttina. Auk þess að vera heilbrigð og góð íþrótt hefur knattspyrnan einnig mikið uppeldisgildi í einbeitingu, sjálfsögun, drengilegri framkomu og ekki síst í því að læra að tapa með sæmd. Þess vegna stofnaði sr. Friðrik Friðriksson, á sinni tíð, tvö knattspyrnufélög og tengdi þau starfsemi KFUM bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Hann samdi einnig bókina Keppinautar, sem er holl lesning öllum er íþróttina stunda.

Margir keppendanna á HM eiga sér aðdáendur um allan heim. Þeir eru hetjur, sem unga fólkið dáir, tekur sem fyrirmyndir og hyllir í hug og athöfn. Eitt er þar áberandi, sem ekki er talað mikið um, en skiptir þessa ungu menn miklu máli. Mér virðist það einkum þeir, sem eru rómv.- kaþólskrar trúar. Þeir signa sig þegar þeir hlaupa inn á völlinn eða út af honum. Þegar þeir tengjast í hring til hópeflis úti á leikvellinum, rétt áður en barátta þeirra hefst, þá hef ég í eitt skipti séð ofan í hringinn. Þar var þá einn, jafnvel fyrirliðinn, sem kraup og lyfti höndum til himins. Þetta sýndi mér án efa sameiginlega bæn þeirra um að erfiði þeirra mætti bera árangur. Þegar mörk hafa verið skoruð er gjarnan lyft höndum eða a.m.k. einum fingri í hæðir frá manni sem tjáir Guði þakklæti sitt með gleðitárum.

Þetta hefur glatt mitt gamla hjarta og presturinn í mér hrópaði ósjálfrátt „bravó“, þegar samnefndur markmaður yfirgaf hópeflishringinn og signdi sig, er hann hljóp í átt að marki sínu til að verja það.

Höfum þá að fyrirmynd

Mér finnst þetta ekki síður eftirbreytni vert en snilld þeirra með knöttinn, a.m.k. fyrir okkur, sem höfum enga von um að ná þeim þar. Við skulum íhuga, að þarna eru menn á ferð sem vita, að til að ná árangri, þurfa þeir að leggja fram alla sína orku þær 90–120 mínútur sem leikurinn stendur, leggja sjálfa sig í hættu vegna meiðsla og svo margt annað sem ég þekki ekki. Kröfurnar sem gerðar eru til þeirra eru í raun ofurmannlegar. Og hvert leita þeir til þess að svara þessum kröfum? Þeir leita til hins yfirmannlega, til Guðs, skapara síns, hans sem allan kraft hefur á sínu valdi. Þannig tengja þeir saman starf sitt, áhugamál sitt, já, líf sitt allt og trúna sem þeim var ungum innrætt. Tæki þeirra til þess er bæn og lofgjörð. Og að þeir gefast ekki upp í þeirri viðleitni er mér enn ein sönnun þess, sem góður maður sagði eitt sinn um bænina, að menn hættu aldrei að leita í þessa miklu uppsprettu, af því þeir hefðu ætíð fundið þar lindir lifandi vatns.

HM er ekki lokið. Notum tímann til að virða fyrir okkur, hvernig þessir ungu snillingar vefa ófeimnir saman starf sitt, já, líf sitt og trú. Höfum þá að fyrirmynd að þessu leyti. Göngum til starfa okkar í trausti til hans, sem er okkar besti bróðir. Gleymum ekki að þakka honum þegar vel gengur – þegar við skorum á okkar vettvangi. Látum ekki signinguna gleymast. Morgunbæn er í dag ekki eins algeng okkar á meðal og kvöldbænin. En það getur nánast komið í stað hennar að signa sig í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, þegar við göngum út til móts við áskoranir komandi dags.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×