Erlent

Klukkunni í Venes­úela flýtt til að spara rafmagn

ingvar haraldsson skrifar
Fjöldafundur í Caracas, höfuðborg Venesúela þar sem farið er fram á afsögn forseta landsins.
Fjöldafundur í Caracas, höfuðborg Venesúela þar sem farið er fram á afsögn forseta landsins. fréttablaðið/epa
Stjórnvöld í Venes­úela hafa flýtt klukkunni í landinu um þrjátíu mínútur til að spara rafmagn. Breytingin var hluti af aðgerðaráætlun Nicolas Maduro, forseta Venesúela, til að takast á við alvarlegan rafmagnsskort, en landið glímir við djúpa efnahagskreppu. BBC greinir frá.

Stjórnvöld hafa þegar tekið ákvörðun um að skammta rafmagn á ákveðnum tímum og stytta vinnuvikuna hjá opinberum starfsmönnum í tvo daga. Maduro segir að þurrkar séu ástæða rafmagnsleysisins. Stjórnarandstaðan segir hins vegar ástæðuna vera að orkugeiranum sé illa stjórnað. 

Hún safnar nú undirskriftum þar sem farið er fram á þjóðaratkvæðagreiðslu til að koma Maduro frá völdum. Tæplega tvær milljónir hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalistann en um sex milljónir undirskrifta þarf til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð forsetans í embætti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×