Enski boltinn

Klopp um stöðu Sturridge: „Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist í sumar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Sturridge gæti verið á útleið.
Daniel Sturridge gæti verið á útleið. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist óviss hvað verður um framherjann Daniel Sturridge næsta sumar en ákvörðun um framtíð hans verður ekki tekin fyrr en í lok leiktíðar.

Hinn 27 ára gamli Sturridge fær lítið að spila undir stjórn Klopp en hann er aðeins búinn að byrja fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Enski landsliðsmaðurinn var sagður á leið frá Liverpool í janúar en Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain voru sagðir áhugasamir um að fá hann í sínar raðir. Hann fór ekki neitt.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist í sumar. Það á ekki bara við um Daniel heldur fullt af leikmönnum,“ sagði Klopp á blaðamannafundi.

„Daniel æfði ekki í átta eða níu daga þegar hann fékk vírus. Við þurfum að koma honum í gott stand og síðan vonandi enda þessa leiktíð á góðum nótum.“

„Eftir það tökum við ákvörðun og svo tala ég um Daniel og hina leikmennina þegar tímabilið er búið. Það er mikið af hlutum sem eiga eftir að gerast sem geta haft áhrif á þessar ákvarðanir,“ segir Jürgen Klopp.

Daniel Sturridge er aðeins búinn að skora sex mörk í öllum keppnum á þessari leiktíð en Liverpool er aðeins búið að vinna tvo leiki á nýju ári og lá í valnum gegn Leicester síðast á mánudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×