Enski boltinn

Klopp nýr stjóri Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp stýrir Liverpool næstu þrjú árin.
Klopp stýrir Liverpool næstu þrjú árin. mynd/heimasíða liverpool
Jürgen Klopp skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Liverpool.

Klopp, sem er 48 ára Þjóðverji, tekur við starfinu af Brendan Rodgers sem var rekinn eftir 1-1 jafntefli Liverpool og Everton á sunnudaginn.

Klopp hefur verið í fríi síðan hann hætti sem knattspyrnustjóri Borussia Dortmund í vor eftir sjö ára starf. Hann gerði Dortmund tvisvar að þýskum meisturum og einu sinni að bikarmeisturum.

Klopp hóf þjálfaraferilinn hjá Mainz árið 2001 en hann lék allan sinn feril með liðinu. Hann kom Mainz upp í þýsku úrvalsdeildina og í Evrópukeppni félagsliða þar sem liðið mætti m.a. Keflavík 2005.

Mainz féll niður í B-deild vorið 2007 og ári síðar hætti Klopp sem stjóri liðsins og tók við Dortmund þar sem byggði upp skemmtilegt lið sem vann þrjá stóra titla og komst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2013 þar sem liðið tapaði 2-1 fyrir Bayern München.

Klopp verður kynntur til leiks á Anfield á morgun en fyrsti leikur Liverpool undir hans stjórn verður gegn Tottenham Hotspur á White Hart Lane laugardaginn 17. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×