Enski boltinn

Klopp hélt langan fund með leikmönnum til að hreinsa loftið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, greindi í gær frá því að hann hafi haldið langan fund með leikmönnum eftir tapið gegn Swansea um helgina þar sem hann hreinsaði loftið.

Klopp hefur ekki verið ánægður með frammistöðu Liverpool sem hefur unnið aðeins einn af síðustu sex leikjum sínum, eftir að liðið lagði Manchester City að velli á nýársdag.

Gylfi Þór Sigurðsson var hetja Swansea um helgina er hann tryggði sínum mönnum 3-2 sigur með marki sem kom eftir klaufalegan varnarleik þeirra rauðklæddu.



„Við skoruðum tvö mörk sem ætti að vera nóg til að vinna leikinn. En mér vinnst að varnarleikurinn gæti verið betri. Ég tel líka að mörkin sem við höfum fengið á okkur árið 2017 hafi verið keimlík. Áhrif innkasta eru til dæmis of mikil og ræddum við um það,“ sagði Klopp.

Sjá einnig: Sjáið sigurmark Gylfa, metmark Rooney og líka öll hin í enska um helgina | Myndbönd

Klopp sagði enn fremur að svo virtist sem að leikmenn væru ekki að njóta sín inni á vellinum.

„Það var mjög mikið álag á okkur í kringum jólin og áramótin. Það var auðvitað eins fyrir öll lið en mér fannst við reyndar vera komnir aftur á rétta leið fyrir leikinn gegn Swansea og leikmenn að verða ferskir á nýjan leik. En það sem ég ræddi mest um var að njóta þess sem við erum að gera.“

„Við erum Liverpool, lið sem spilar virkilega góðan fótbolta. Við verðum að njóta þess. Við erum ekki lið sem er á botni deildarinnar og þarf að verjast í 80-90 prósent leiktímans. Við erum með talsverða yfirburði í leikjum okkar og verðum að njóta þess, jafnvel þó svo að það beri ekki árangur á fyrstu mínútunum.“

Liverpool mætir Southampton í síðari leik liðanna í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar á miðvikudagskvöld. Southampton vann fyrri leikinn, 1-0.


Tengdar fréttir

Keown: Sigurðsson er frábær leikmaður

Arsenal-goðsögnin Martin Keown hrósaði Gylfa Þór Sigurðsson í Match of the Day þættinum á BBC og segir Swansea eiga möguleika á að halda sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×