Enski boltinn

Klopp gegn Mourinho: Ólíkir stjórar á nákvæmlega sömu vegferð

Í kvöld fer fram stórleikur Liverpool og Manchester United. Stjórarnir tveir eru um margt ólíkir en hafa báðir sama markmið.

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta þarna í miðjunni er það sem þessir menn sækjast eftir. Vísir/Getty
Milljónir munu horfa á leik Liverpool og Mancester United á Anfield í kvöld. Að venju er allt undir, heiðurinn, grobbið og mikilvægustu þrjú stig tímabilsins sem hægt er að finna. Enginn fær betra útsýni en stjórarnir tveir, José Mourinho og Jürgen Klopp. Þeir eru um margt ólíkir stjórir en eru báðir á sömu vegferð. Að endurreisa fallna risa.

Bæði lið hafa mátt muna sinn fífill fegurri. Að undanskildu tímabilinu 2013/2014 hefur Liverpool lítið afrekað undanfarin ár og Manchester United hefur enn ekki tekist að koma sér undan löngum skugga Sir Alex Ferguson.

Sjá einnig:Scholes veðjar á Liverpool

Brendan Rodgers og Louis van Gaal afrekuðu lítið sem ekki neitt og áhuginn fyrir fyrstu viðureign liðanna á síðasta tímabili var í lágmarki. Engan skal undra. Árið 2015 háðu liðin sögulega baráttu í meðalmennsku þegar þau bitust um fjórða sætið.

Það sama má segja um sumarið fyrir síðasta tímabil þar sem allt snerist um hvort að bestu leikmenn liðanna, Raheem Sterling og David de Gea, myndu halda á grænni grundir. Síðasta tímabil endurspeglaði þetta fullkomlega. Tímabili Liverpool var lokið áður en það hófst, United blés og blés en ekkert gekk. Bæði lið þurftu að reyna aftur.

Klopp hefur komið með ákveðna ákefð á hliðarlínuna sem smitar út frá sér til leikmanna liðsinsVísir/Getty
Þýski bjargvætturinn mætir til leiks

Forsvarsmenn Liverpool voru fyrr að átta sig en kollegar þeirra hjá United og réðu Klopp til starfa strax í október á síðasta ári. Eftir á að hyggja var þetta stórbrotin ákvörðun enda gerði hún það að verkum að Liverpool fékk í reynd 10 mánaða undirbúningstímabil fyrir það tímabil sem nú stendur yfir. Klopp gat kortlagt styrkleika og veikleika liðsins, losað sig við þá sem ekki stóðust prófið og áttað sig á hvaða leikmenn myndu smellpassa inn.

Þrátt fyrir að Liverpool hafi ekki náð í ofurstjörnuna sem allir leikmannagluggar nú til dags virðast snúast um var sumarið nánast óaðfinnanlegt hjá Liverpool. Liðið var búið að ganga frá sínum kaupum áður en ágúst hófst. Klopp hafði rúman tíma til að vinna með sínum mönnum fyrir tímabilið.

Sjá einnig:Mourinho um Rooney: Sagan skiptir engu máli

Afraksturinn leynir sér ekki. Færa má sannfærandi rök fyrir því að Liverpool spili skemmtilegasta boltann í deildinni. Þungarokksbolta þar sem áhorfendur og andstæðingar fá engan tíma til þess að hugsa sig um. Ef þú deplar augunum ertu búinn að missa af augnablikinu. Ef þú ert varnarmaður ertu búinn að fá á þig mark, áhorfendur geta að minnsta kosti horft á endursýninguna.

Er við ofurefli að etja?

Liðinu vegnar vel þessa dagana enda er Klopp þannig stjóri að hann nær að hámarka styrkleika leikmannahóps síns og lágmarka veikleikana líkt og hann sýndi svo glöggt með Dortmund á sínum tíma.

Hans hlutverk hjá Liverpool er ósköp einfalt en þó óendanlega erfitt. Svo erfitt að Kenny Dalglish hefur hætt með Liverpool, unnið titilinn með öðru liði, flutt til Skotlands, tekið aftur við Liverpool og hætt enn á ný án þess að Liverpool hafi tekist að vinna titilinn í millitíðinni.

Sjá einnig:Gerrard valinn bestur fram yfir Giggs og Ronaldo

Það skal þó engan undra. Rómantíkin er hægt og bítandi að deyja í enska boltanum og sökudólgurinn eru peningarnir sem aldrei hafa fundist í jafn ríkum mæli í Úrvalsdeildinni og nú. Sýnt hefur verið fram á að það sé mikil fylgni á milli launakostnaðar liða og söfnun titla og þar hefur Liverpool hreinlega ekki bolmagnið til þess að keppa við risa fjármagnsins, Manchester-liðin, Arsenal og Chelsea.

Í Þýskalandi þurfti Klopp aðeins að yfirstíga eitt lið til þess að vinna titilinn, á Englandi þarf hann að hafa betur en fjögur til fimm lið sem öll búa yfir meiri fjármagni og eru flest betur búin hópalega séð. Rodgers var svo nærri því að vinna titilinn 2013/2014 þegar Liverpool átti sitt besta tímabil frá stofnun Úrvalsdeildinnar. Samt réði liðið ekki við að yfirstíga alla sína keppinauta. City, með alla sína olíuaura, hafði betur.

Kenny Dalglish fagnar síðasta deildartitli Liverpool í góðum hópi. Það eru 26 ár frá því að þessi mynd var tekin.Vísir/Getty
Ef Klopp vinnur ekki titilinn með Liverpool mun enginn gera það

Klopp eygir þó tækifæri á titilbaráttu þetta tímabilið enda án Evrópukeppni þetta tímabilið. Líkt og 2013/2014 veitir það liðinu ákveðið forskot á önnur lið. Það spilar færri leiki sem þýðir að hópurinn þarf ekki að vera jafn breiður og hjá öðrum liðum.

Að sama skapi getur liðið nýtt mun meiri tíma til þess að undirbúa hvern leik. Með öðrum orðum, Undirliggjandi aðstæður eru þær sömu og þeyttu Liverpool í titilbaráttuna tímabilið fræga fyrir tveimur árum. Klopp sér tækifærið og risastórt skref í átt að óvæntum árangri á tímabili verður tekið náist sigur á morgun.

Það er allt undir, Klopp veit það, stuðningsmennirnir vita það. Enda læðist að manni sá grunur að takist Klopp ekki að vinna titilinn með Liverpool, geti það hreinlega enginn.

Mourinho hefur fengið það erfiða verkefni að koma United aftur í hæstu hæðir. Langur skuggi Sir Alex Ferguson er þóaldrei skammt undan.Vísir/Getty
José Mourinho: Einstakur snillingur eða útbrunninn vindhani?

Þau eru einmitt ólík fjárráðin á Old Trafford en á Anfield. Ótakmörkuð er orð sem er ekki fjarri lagi á þeim bænum og það sást í sumar þegar nýtt met var slegið þegar ákveðið var að endurfjármagna titilbaráttu Juventus með kaupum á Paul Pogba fyrir nýtt met sem líklega verður aftur slegið af United á næsta tímabili.

Mourinho hætti ekki þar og splæsti í besta leikmann frönsku deildarinnar, besta leikmenn þýsku deildarinnar og efnilegasta varnarmann spænsku deildarinnar. Það þarf því ekki mikinn speking til þess að sjá hvert markmið Mourinho fyrir tímabilið hafi verið. (Það var titilinn ef þú ert ekki alveg viss.)

En líkt og Liverpool-menn þekkja svo vel er ekki létt verk að lífga við fallna risa. Manchester United er einn af ofurklúbbum heimsins og allra augu beinast að öllu sem gerist innan félagsins. Pressan sem fylgir því að starfa fyrir United er gríðarleg og enginn ber þyngri byrði en stjórinn sjálfur. Moyes brotnaði, Van Gaal bognaði og því var leitað á náðir eins af líklega þremur stjórum sem sýnt hafa að þeir ráða við þessi ofurstörf.

Leikmenn eiga að gera hið andstæða við það sem Louis van Gaal vildi

Það er ýmislegt að hjá United, bæði innan sem utan vallar, og líklega mun það taka einhvern tíma að laga til eftir þá félaga Moyes og Van Gaal. Sá síðarnefndi skildi eftir sig ansi stórt og mikið fótspor á félaginu og besta dæmið um það er lítil saga sem Ander Herrera, miðjumaður United, sagði á dögunum.

Fyrir ekki svo löngu síðan hafði Mourinho stöðvað æfingu hjá United, farið til Ander Herrera og byrjað að útskýra fyrir honum hvað það væri sem hann ætlaðist til af miðjumanninum spænska. Herrera er klár strákur og hlustaði af kostgæfni á það sem Mourinho hafði fram að færa. Þegar Portúgalinn hafði lokið sér af þagði Herrera í andartak áður  en hann útskýrði fyrir yfirmanni sínum að það sem hann væri að biðja sig um væri algjörlega á öndverðum meiði við það sem Louis van Gaal hafði sagt honum að gera.

Ævintýri Mourinho á Anfield eru gjarnan viðburðarík.Vísir/Getty
Ef Mourinho tekst ekki að endurreisa United tekst engum það

Mourinho var atvinnulaus á síðari hluta seinni hluta tímabilsins og það er nær algjörlega öruggt að hann hafi nýtt tímann í að kortleggja United. Það er því allar líkur á því að hann hafi áttað sig á vandamálinu sem Herrera lýsti fyrir honum. Í ljósi þess er það augljóst af hverju svo mikil áhersla var á að næla í Paul Pogba og Zlatan Ibrahimovic, sjálf gæðin holdi klædd. Á meðan Mourinho myndi sníða af handbragð Louis van Gaal myndu þeir félagar koma í veg fyrir töpuð stig í millitíðinni.

Ágætis plan sem hefur ef til vill ekki gengið fullkomlega eftir þó að United sé ekki langt á eftir toppliðunum. Stuðningsmenn United eru þó afar bjartsýnir á framhaldið enda loksins komnir með stjóra sem veldur starfinu, sé miðað við orðspor Mourinho í gegnum tíðina.

Sjá einnig:Smalling: Þetta er er hinn eini sanni leikur

Stuðningsmennirnir vita það enda mæta vel hafandi gert grin að Liverpool í öll þessi ár að það getur tekið áratugi að endurlífga félög sem missa taktinn eftir áralangt sigurtímabil. Þeir hafa trú á að Mourinho geti staðið undir orðspori sínu, þrátt fyrir að það hafi beðið þó nokkra hnekki eftir afar dapra titilbaráttu Chelsea á síðasta ári.

Þeir vita það nefnilega að það gildir það sama um Mourinho og United og Klopp og Liverpool. Ef honum tekst ekki að koma United aftur á efsta stall, tekst engum það.

Leikur Liverpool og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19:00 í kvöld.


Tengdar fréttir

Souness: Liverpool getur orðið meistari

Graham Souness, Thierry Henry og Gianluca Vialli ræddu stórleik Liverpool og Manchester United á Skysports í gær en leikurinn fer fram annað kvöld.

Smalling: Þetta er hinn eini sanni leikur

Chris Smalling, varnarmaður Manchester United, segir að leikirnir gegn Liverpool séu ávallt sérstakir. Liðin mætast á Anfield annað kvöld.






×