Enski boltinn

Klopp: Myndi ekki eyða 100 milljónum í leikmann þó ég gæti það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp hefur ekki 100 milljónir til að eyða í einn leikmann og er bara sáttur.
Jürgen Klopp hefur ekki 100 milljónir til að eyða í einn leikmann og er bara sáttur. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur engar áhyggjur af eyðslu stóru liðanna á Englandi þetta sumarið en hann segir að verðandi 100 milljóna punda kaup Manchester United á Paul Pogba sé röng aðferðafræði.

Klopp er búinn að festa kaup á Sadio Mané frá Southampton og Georginio Wijnaldum en kaup Liverpool blikna í samanburði við 100 milljónirnar sem United ætlar að eyða í einn og sama leikmanninn.

Að eyða svona miklum pening í einn leikmann er ekki eitthvað sem Jürgen Klopp hefur áhuga á, að hans sögn. Hann vill frekar byggja upp lið.

„Ef þú kaupir einn leikmann fyrir 100 milljónir punda og hann meiðist fer allt í vaskinn. Daginn sem þetta verður venjulegt í fótboltanum verð ég atvinnulaus því fótboltinn snýst um að spila saman,“ segir Klopp sem er í æfingaferð með Liverpool í Bandaríkjunum.

„Maður vill alltaf vera með bestu leikmennina en það er líka mikilvægt að byggja upp hóp. Önnur félög geta eytt meiri pening en við og keypt bestu leikmennina. Ég vil gera hlutina öðruvísi. Ég myndi meira að segja gera þetta öðruvísi þó ég gæti eytt svona miklu.“

„Ég veit ekki hversu miklu við getum nákvæmlega eytt því enginn er búinn að banna mér neitt hingað til. Ef við eyðum peningum er það til að byggja upp lið. Alvöru lið,“ segir Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×