Enski boltinn

Klopp: Liverpool gaf mér besta hálftímann á mínum ferli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp fagnar marki gegn Dortmund í leiknum.
Jürgen Klopp fagnar marki gegn Dortmund í leiknum. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur unnið þýsku deildina tvívegis í einvígi gegn Bayern München, spilað leik í Meistaradeildinni á móti Bayern á Wembley og unnið bikarinn í Þýskalandi.

Ekkert af því sem hann upplifði í Þýskalandi jafnast á við hálftímann í seinni hálfleik í seinni leiknum gegn Dortmund í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð þegar Liverpool sneri við töpuðu einvígi og komst áfram í átta liða úrslitin.

Dejan Lovren skoraði sigurmark með skalla, 4-3, í uppbótartíma en Liverpool vann einvígið, 5-4. Lærisveinar Klopps komust alla leið í úrslitaleikinn en þurftu þar að játa sig sigraða gegn Sevilla í Basel.

„Við erum komnir með nýja stúku í Liverpool sem tekur 22.000 manns sitjandi. Ég hef aldrei séð það áður,“ sagði Jürgen Klopp í þættinum Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi.

„En The Kop færði mér besta hálftímann sem ég hef átt í fótbolta. Ég þarf ekki einu sinni að segja að það var síðasti hálftíminn gegn Dortmund.“

„Stemningin á vellinum var sú besta sem ég hef upplifað. Vonandi ekki sú besta sem ég mun nokkurn tíma upplifa en hún var ótrúleg,“ sagði Klopp sem upplifði nú margar ótrúlegar stundir á Westfalen-vellinum með Dortmund.

„Ég vil ekki bera þetta tvennt saman. Ég er heppinn maður sem hefur stýrt tveimur frábæru félögum og nú er ég að vinna hérna. The Klop er merkilegur staður og ég elska að spila fyrir framan þá stúku,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×