Enski boltinn

Klopp: Ég var nálægt því að klappa fyrir markinu hans Vardy

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkenndi í viðtali eftir 2-0 tap sinna manna gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi hann var ekki langt frá því að klappa fyrir stórkostlegu marki Jamie Vardy.

Enski framherjinn hefur verið magnaður á leiktíðinni og skoraði í gærkvöldi mörk númer 17 og 18 í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Hann er markahæstur í deildinni, þremur mörkum á undan Harry Kane og Romelu Lukaku sem verður í eldlínunni með Everton í kvöld.

Klopp var óánægður með frammistöðu sinna manna í heildina í gærkvöldi, en eftir nokkuð jafnan leik kom Vardy toppliði Leicester yfir með hreint mögnuðu marki og því fyrsta sem hann skorar fyrir utan teig á tímabilinu.

„Svona hlutir gerast þegar maður er í stuði eins og Vardy og Leicester eru. Auðvitað þarf smá heppni til en þetta var virkilega gott mark. Fyrst og fremst þarf maður að vera nógu hugaður til að reyna þetta,“ sagði Klopp í viðtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Þetta er fullkomin leiktíð fyrir Leicester og fullkomin fyrir Vardy. Þetta lið verðskuldar hvert stig sem það fær og Vardy verðskuldar hvert einasta mark. Ég var nálægt því að klappa fyrir markinu ef ég á að vera heiðarlegur en mér leið bara of illa á þeirri stundu,“ sagði Jürgen Klopp.

Liverpool er eftir leikinn með 34 stig í áttunda sæti deildarinnar, ellefu stigum frá Meistaradeildarsæti.

Markið magnaða hjá Vardy má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×