Enski boltinn

Klopp: Ég var búinn að fylgjast með Mané í fjögur ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst ánægður með að vera loksins búinn að landa senegalska framherjanum Sadio Mané.

Mané var kynntur til leiks hjá Liverpool í gær en hann kemur til Bítlaborgarliðsins frá Southampton. Talið er að Liverpool hafi borgað um 30 milljónir punda fyrir Mané sem gerir hann að þriðja dýrasta leikmanni í sögu félagsins á eftir Andy Carroll og Christian Benteke.

„Ég er búinn að fylgjast með Sadio í nokkur ár eða frá Ólympíuleikunum 2012. Ég fylgdist með honum í Austurríki og hjá Southampton,“ sagði Klopp um Mané sem kom til Southampton frá Red Bull Salzburg 2014.

„Síðan ég kom hef ég oft rætt við starfsfólkið hérna um hann og taldi að hann gæti orðið góð kaup fyrir okkur. Hann býr yfir miklum hæfileikum, er vinnusamur og með góða markatölfræði.“

Mané skoraði 25 mörk í 75 leikjum fyrir Southampton, þ.á.m. eftirminnilega þrennu gegn Aston Villa í maí 2015. Mané gerði þá þrjú mörk á tveimur mínútum og 56 sekúndum og sló met Robbies Fowler yfir sneggstu þrennuna í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Að sögn Klopps sýndi Mané mikinn áhuga á að ganga í raðir Liverpool sem endaði í 8. sæti úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

„Þegar ég talaði við hann fann ég hvað hann var spenntur að koma til félagsins og spila fyrir okkar frábæru stuðningsmenn. Þeir verða jafn spenntir að sjá hann spila í búningi Liverpool og ég,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×