Enski boltinn

Klopp: Ég á alltof mikið af silfurverðlaunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnurstjóri Liverpool, var brosandi á blaðamannafundinum.
Jürgen Klopp, knattspyrnurstjóri Liverpool, var brosandi á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnurstjóri Liverpool, var jákvæður og skemmtilegur eins og hann á að sér á blaðamannafundi fyrir úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fer fram í Basel í Sviss á morgun.

Liverpool mætir þar spænska liðinu Sevilla og það er ekki bara Evróputitill í boði heldur einnig sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Heima í Þýskalandi á ég alltof mikið af silfurverðlaunum en það er þó betra en að eiga engar medalíur," sagði Jürgen Klopp.

Klopp fékk sjö silfurverðlaun þegar hann var með Borussia Dortmund og hefur þegar náð í eitt silfur sem stjóri Liverpool en liðið tapaði í úrslitaleik deildabikarsins á dögunum.

„Því lengur sem þú vinnur ekkert því meira reynir þú og þá ættu að vera meiri líkur á því að þú vinnir. Ég trúi því að minnsta kosti," sagði Klopp og hann er ánægður með leikmennina sína.

„Þessir strákar hafa skilað sínu verki fullkomlega. Ég er mjög ánægður með að fá að vera hluti af þessu," sagði Klopp.

„Þetta verður opinn leikur en ég segi alltaf að opnir leikir eru leikir sem við getum unnið," sagði Klopp.

„Það voru einhverjir að efast um gæði leikmannahópsins þegar ég kom hingað en ég ánægður með að þeir fái nú tækifæri til að sýna hversu góðir þeir eru," sagði Klopp.

Liverpool-liðið hefur slegið út Manchester United, Borussia Dortmund og Villarreal út á leiðinni í úrslitaleikinn.

„Allt sem við höfum gert þann tíma sem við höfum verið saman hefur undirbúið okkur fyrir leik sem þennan. Ég finn ekki fyrir pressu ég sé tækifæri," sagði Klopp.

Liverpool endaði í 8. sæti í ensku úrvalsdeildinni, datt út í 32 liða úrslitum enska bikarsins og komst í úrslitaleik enska deildabikarsins.

Leikur Liverpool og Sevilla hefst klukkan 18.45 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×