Skoðun

Klíkan og kjötkatlarnir

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Getur klíkusamfélagið enn komið okkur á óvart? Já, svei mér þá það gerðist á laugardaginn. Nú mega íslenskir réttkjörnir ráðamenn ekki stoppa við Kerið og sýna gestum okkar, þjóðarinnar, mikilfenglega náttúruna.

Eigendur náttúruperlunnar eru í stjórnarandstöðu. Eigendunum er illa við að ráða ekki. Eigendurnir vilja komast aftur að kjötkötlunum, svo þeir geti haldið áfram að verja sérhagsmunina.

Líklega er enginn stjórnmálaflokkur á landinu sem talar meira um sátt en stærri stjórnarandstöðuflokkurinn. Sáttin þeirra gengur út á að allt verði áfram eftir þeirra höfði eins og það hefur verið langa lengi.

Tillögur þeirra í öllum málum ganga út á að kosið verði, vegna þess að þau halda að þá komist þau aftur að. Það fer hins vegar minna fyrir því hvað þau ætla að gera ef þau komast að.

Ef marka má hátíðardagskrá á fundi Samtaka atvinnulífsins, sem lítur helst út fyrir að vera sérdeild í stærri stjórnarandstöðuflokknum, þá vilja menn hverfa til starfshátta sem tíðkuðust í landinu áður en efnahagslífið hér á landi fór fjandans til.

Þá var í tísku að gera grín að eftirlitsiðnaðinum, það er enn í tísku. Þá blómstraði hér öflugt fjármálalíf sem atvinnulífið dásamaði – en var í raun allt tómt svindl og svínarí.

Hverjar urðu afleiðingarnar. Við þekkjum þær öll. Hærri skattar, minni kaupmáttur, hærri afborganir af lánum og gjaldeyrishöft. Það er sannarlega undarlegt að sitja og hlusta á atvinnurekendur sem vilja láta líta á sig sem ábyrgt afl í þjóðfélaginu tala eins og allt sé þetta ríkisstjórninni að kenna.

Fólk veit betur. Fólk veit hvað olli hruninu. Fólk veit að það var óábyrg stjórn efnahagslífsins, óábyrg hegðun atvinnurekenda og óábyrg hegðun margra heimila – kannski ekki skrítið, því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Til að komast aftur á réttan kjöl þurfum við ábyrga efnahagsstjórn, ábyrga stjórn heimilanna og ábyrga stjórn atvinnuveganna. Því miður virðist sem við höfum einungis það tvennt sem fyrst var upp talið. Kann það góðri lukku að stýra?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×