Körfubolti

Klay fær flest skot hjá Golden State en ekki Curry eða Durant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Kevin Durant.
Stephen Curry og Kevin Durant. Vísir/Getty
Lið Golden State Warriors er með besta árangurinn í NBA-deildinni enda einstaklega vel mannað lið. Það er nóg af frábærum leikmönnum sem allir þurfa sín skot.

Stephen Curry hefur verið kosinn bestur undanfarin tvö tímabil, Kevin Durant hefur bæði verið stigahæstur og kosinn bestur í deildinni, Draymond Green gælir reglulega við þrennur og Klay Thompson á að baki 60 stiga leik í NBA-deildinni í vetur.

Kevin Durant er með 25,8 stig og 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik, Stephen Curry er með 24,2 stig og 4,8 stoðsendingar í leik og meðaltöl Klay Thompson eru upp á 21.5 stig og 2,0 stoðsendingar í leik. Draymond Green er síðan með 10,9 stig, 8,6 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Tölfræðingar ESPN tóku það saman hverjir eru að taka flest skot þegar allar fjórar stórstjörnur Golden State liðsins eru saman inn á vellinum.

Flestir hefðu eflaust búist við því að það séu annaðhvort Stephen Curry eða Kevin Durant sem eru að fá flest skot en það er ekki svo.

Þegar allir fjórir eru inn á vellinum í einum þá er það Klay Thompson sem hefur tekið flest skot það sem af er tímabilinu.

Klay Thompson hefur tekið 18 fleiri skot en Kevin Durant og 59 fleiri skot en Stephen Curry. Draymond Green tekur langfæst skot af þeim er líka með langflestar stoðsendingar af þessum fjórum.

Kevin Durant er með langbestu nýtinguna af þeim fjórum (54 prósent) en Klay er að nýta 47 prósent skota sinna, Curry er með 46 prósent nýtingu og Green nýtir 45 prósent skota sinna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×