Fótbolti

Klavan: Verið draumur minn í 22 ár að spila fyrir Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Klavan.
Ragnar Klavan. vísir/getty
Ragnar Klavan, nýr miðvörður Liverpool, segir það draumi líkast að vera kominn í ensku úrvalsdeildina en hann sat fyrir svörum í fyrsta viðtali sínu á sjónvarpsstöð Liverpool sem má sjá hér.

Eistlendingurinn var keyptur til Liverpool á miðvikudaginn frá Augsburg í Þýskalandi en hann gæti ekki verið mikið spenntari.

„Það er mikill heiður að verða hluti af þessu ótrúlega félagi og og þessu frábæra liði. Það er erfitt að lýsa þessu því það hefur verið draumur minn í 22 ár að spila í ensku úrvalsdeildinni og vera hluti af Liverpool,“ segir Ragnar Klavan.

„Það sem er mest spennandi er saga Liverpool og allir titlarnir sem liðið hefur unnið. Svo hafa engin smá nöfn verið hérna á Melwood og spilað á Anfield. Ég get ekki lýst því hvernig það er að vera hluti af þessu. Þetta eru forréttindi.“

Klavan var mikill aðdáandi markvarðarins Mart Poom sem var fyrsti Eistlendingurinn sem spilaði í ensku úrvalsdeildinni en hann var á mála hjá Derby í sex ár.

„Hann var átrúnaðargoðið mitt þegar ég ólst upp. Ég fylgdist með honum hvert fótmál þannig að hann hafi verið í ensku úrvalsdeildinni er líka stór ástæða þess að mig langaði að spila hérna. Enska úrvalsdeildin er mest spennandi deild heims og hér spila margir magnaðir leikmenn,“ segir Ragnar Klavan.


Tengdar fréttir

Ekki þennan Ragnar, Klopp

Líklegt þykir að Liverpool gangi frá kaupunum á Ragnar Klavan, leikmanni Augsburg og fyrirliða eistneska landsliðsins, á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×