Innlent

Klaufagangur við lagasetningu gæti kostað ríkið fimm milljarða króna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Samkvæmt hagsmunaskráningu er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ekki í öðru launuðu starfi. Þar segir jafnframt að hann eigi sæti í skipulagsnefnd Garðabæjar.
Samkvæmt hagsmunaskráningu er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ekki í öðru launuðu starfi. Þar segir jafnframt að hann eigi sæti í skipulagsnefnd Garðabæjar. vísir/ernir
„Það má færa góð rök fyrir því að afturvirknin sé ólögmæt,“ segir Arnar Þór Jónsson, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Alþingi samþykkti í gærkvöldi afturvirka breytingu á almannatryggingalögum í þeim tilgangi að leiðrétta mistök frá fyrra þingi. Umdeilt er hvort eignarréttindi handa ellilífeyrisþegum hafi skapast með mistökum Alþingis.

Lögum um almannatryggingar var breytt síðasta haust með það að markmiði að sameina bótaflokka og einfalda skerðingarkerfið. Vegna mistaka við lagasetningu koma greiðslur úr lífeyrissjóðakerfinu ekki til frádráttar við útreikning á ellilífeyri líkt og stefnt var að.

Í tilkynningu frá ASÍ var fyrirhugaðri lagabreytingu mótmælt og því haldið fram að með henni væri lífeyrisþegum gert að endurgreiða ofgreiddan ellilífeyri. Þar sem Tryggingastofnun fór ekki eftir lögunum, heldur greiddi ellilífeyri fyrir janúar og febrúar eins og lagatextinn átti að vera en ekki eins og hann var í raun, kom ekki til þess. Hefði stofnunin greitt lífeyrinn eftir ákvæðum laganna hefði það kostað ríkissjóð um 2,5 milljarða króna fyrir hvorn mánuð.

Hefði samþykkt leiðréttingarlaganna í gær dregist hefði marsmánuður bæst við. Á þinginu í gær kom fram að Tryggingastofnun hefði uppgötvað mistökin 20. janúar síðastliðinn. Þinginu var gert viðvart í febrúar.

Arnar bendir á að það sé meðal grunnsjónarmiða réttarríkisins að lagasetning sé skýr, skilmerkileg og að lög séu að efni til framvirk.

„Verði löggjafanum á mistök við lagasetningu verður hann almennt að bera ábyrgð á því sjálfur,“ segir Arnar. „Þegar kemur að því að höggva á þennan hnút sem kominn er á málið verður að fara hina hefðbundnu dómstólaleið.“

Ellert B. Schram. formaður Félags eldri borgara. segir að ekki verði höfðað dómsmál í nafni félagsins vegna máls sem greinilega séu mistök. „Við ráðum hins vegar ekki ef einstaklingur úti í bæ telur að þarna sé verið að skerða rétt hans.“

Í íslenskum lagatexta er ekki að finna almennt bann við afturvirkni laga en í stjórnarskránni er tekið fyrir afturvirkni refsi- og skattalöggjafar. 

Deilt um málið á þinginu í gærkvöld

Frumvarp til leiðréttingar á fyrri lögum var lagt fram af meirihluta velferðarnefndar fyrir tæpri viku. Í greinargerð með því kemur fram að þegar lögunum var breytt síðasta haust var fyrir mistök var vísað í vitlausa málsgrein á nokkrum stöðum. Munurinn á því að vísa í 3. mgr. 16. gr., líkt og gert var, og 4. mgr. 16. gr., líkt og átti að gera, er þrjátíu milljarðar króna kostnaður fyrir ríkissjóð á ársgrundvelli.

„Hér er einfaldlega um skýrt mál að ræða. Það hefur verið lengi, árum saman, í undirbúningi, þ.e. endurskoðun á almannatryggingum. Það var alltaf ljóst í allri undirbúningsvinnu af hálfu nefndarinnar, almannatrygginganefndarinnar sem vann að undirbúningi þessa máls, að verið væri að einfalda bótakerfið þar sem til kæmi ein skerðingarprósenta á móti öllum tekjum viðkomandi lífeyrisþega. Þess vegna var alveg ljóst að ásetningur löggjafans í þessu máli var algjörlega skýr, hagsmunaaðilum öllum sem að málinu komu í nefndinni, í umsögnum sínum fyrir þinginu, var þessi ásetningur líka ljós og má lesa það út úr öllum umsögnum þeirra að þeim var fyllilega ljóst hvers konar skerðingar ættu að vera,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, í svari við óundirbúinni fyrirspurn Píratans Halldóru Mogensen um efnið.

Þorsteinn sagði að það væri alveg á tæru að, í umræðu um mögulega bótaskyldu ríkisins vegna mistakanna, að aldrei hefði stofnast til réttmætra væntinga lífeyrisþega á að þeir ættu rétt á greiðslunni. Það ítrekaði Vilhjálmur Árnason í framsögu meirihluta velferðarnefndar við upphaf annarar umræðu á þinginu í gær.

Minnihluti velferðarnefndar, Píratar og Samfylkingin, lagði til að lögunum yrði breytt en ekki með afturvirkum hætti. Breytingin tæki gildi 1. mars en ekki 1. janúar líkt og gert var.

„Réttmætar væntingar eru ekki sterkt hugtak hér á landi. Eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar er mjög sterk og skal allar skerðingar á eignarrétti ávallt bæta. Mögulega er það ástæðan fyrir því að aðeins örfáir dómar hafa fjallað um réttmætar væntingar. Út frá lögunum eins og þau standa nú er ljóst að lögmætar væntingar hafa skapast hvað svo sem segja má um réttmæti þeirra,“ segir í nefndaráliti 1. minni hluta um málið.

Nokkrar umræður sköpuðust um málið í annarri umræðu. Fór þar mikið fyrir þingmönnum Pírata sem spurðu meðal annars hvernig þetta gat gerst, hver bæri ábyrgð á málinu og lýstu því yfir að þeir styddu ekki málið meðan vafi væri uppi um lögmæti afturvirkninnar. Þá var minnst á tillögur frá síðasta þingi þess efnis að við vinnu á frumvörpum væri gert auðveldara að fylgjast með hvaða breytingar væri verið að leggja til þannig að auðveldara væri að fylgjast með svokölluðum „track changes“.

„Mistökin voru ljós 20. janúar, þá vissu menn að það hefðu verið gerð mistök. Þá vissu menn að það væru 2,5 milljarður sem væru undir á hverjum mánuði. En við erum núna, 27. febrúar, er þingið að klára þetta mál og taka afturvirka ákvörðun til 1. janúar að það eigi ekki að greiða út þetta peninga. Hvers vegna var þingið ekki kallað til fyrr? Það finnst mér mjög einkennilegt. Það er fúsk,“ sagði Jón Þór Ólafsson meðal annars úr ræðustól Alþingis.

„Eins fram kom í ræðu framsögumanns þá skrifa ég undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Ég, háttvirtur þingmaður, og aðrir háttvirtir þingmenn Framsóknarflokksins styðjum þessa leiðréttingu og greiðum því atkvæði okkar. [...] Við vorum í ríkisstjórn á þeim tíma þegar þetta mál fór í gegnum Alþingi og við viljum sýna þá ábyrgð að klára þetta mál hér og leiðrétta þessi leiðinlegu mistök sem áttu sér stað“ sagði Elsa Lára Arnardóttir þingmaður Framsóknar. Svo fór að hún var eini þingmaður flokksins sem ekki var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Leiðrétting: Rangt var farið með að Elsa Lára Arnardóttir hefði verið eini þingmaður Framsóknarflokksins sem viðstaddur var lokaafgreiðslu málsins. Eygló Harðardóttir var einnig í þingsal og greiddi atkvæði með frumvarpinu.

 Við lokaafgreiðsluna sátu Píratar, Samfylking og Vinstri græn hjá. Stjórnarþingmenn og Elsa Lára Arnardóttir úr Framsóknarflokki samþykktu lögin en þingfundi lauk á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×