Lífið

Klárar tónleikaferðalagið með stæl

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Gleði í alla staði - Helgi segir ferðalagið hafa gengið stórvel.
Gleði í alla staði - Helgi segir ferðalagið hafa gengið stórvel. MYND/SPESSI
„Þetta er búið að ganga alveg hreint eins og í lygasögu,“ segir Helgi Björns sem lýkur fimm vikna tónleikaferðalagi sínu um landið á laugardag með stórtónleikum í Austurbæ. „Gleði í alla staði. Það var alveg sama hvar maður hefur verið á landinu, sem er bara óviðjafnanlega ánægjulegt.“

Helgi fagnar í ár 30 ára söngafmæli en í tilefni af því kemur út safnplata um mánaðamót þar sem farið verður í yfir ferilinn og komið sem víðast við. „Þetta er ansi stór katalógur þannig að það er svo sem ansi margt sem kemst því miður ekki með,“ segir Helgi.

Hann fær góða gesti með sér á laugardag, þá Unnstein Manuel Stefánsson úr Retro Stefson og Björn Jörund, en Helgi segist hæstánægður með að geta lokið ferðinni með stæl. „Þetta er svolítið eins og með leiksýningu,“ segir söngvarinn. „Það er viss léttir að vera búinn að klára en það er líka ákveðinn tregi. Þetta er svolítið blönduð tilfinning myndi ég halda.“

Helgi og hljómsveit hans hafa nú spilað sex kvöld í viku á tónleikaferðalaginu þannig að þetta hefur verið ansi stíft prógramm. „Þetta tekur á en er búið að vera rosalega gaman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×