Lífið

Klára námið með trompi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þessi ellefu manna hópur útskrifast í maí. Frá vinstri: Ólafur, Vala Kristín, Albert, Halldóra Rut, Dominique Gyða, Baltasar Breki, Eysteinn, Kristín (í efri röð) og Katrín. Sitjandi á gólfi: Þuríður Blær og Kjartan Darri.
Þessi ellefu manna hópur útskrifast í maí. Frá vinstri: Ólafur, Vala Kristín, Albert, Halldóra Rut, Dominique Gyða, Baltasar Breki, Eysteinn, Kristín (í efri röð) og Katrín. Sitjandi á gólfi: Þuríður Blær og Kjartan Darri. vísir/ernir
Við erum að fara að fljúga úr hreiðrinu,“ segir Dominique Gyða Sigrúnardóttir en hún er einn ellefu útskriftarnemenda leikarabrautar Listaháskóla Íslands. Hópurinn frumsýndi í gær verkið Að eilífu, eftir Árna Ibsen, en það er útskriftarverkefni nemendanna. Eftir sýningarnar eru þau útskrifaðir leikarar og almenningur fær vonandi að kynnast þeim á næstu árum í leikhúsinu, kvikmyndum og öðrum verkum.

„Þetta er ljúfsárt, eins og þegar lífið gerist best. Það er erfitt að kveðja þennan hóp, við erum ótrúlega náin enda búin að vera saman á hverjum degi í þrjú ár. En það er líka kominn tími til að takast á við ný verkefni.“

Dominique viðurkennir að það sé svolítið ógnvekjandi að fara út í stóra heiminn úr öruggu skjóli skólans. En hún segir líka mikla spennu vera í hópnum.

„Nokkrir í bekknum, svona um helmingur, eru á leiðinni inn í leikhúsin og eru komnir með samning. Aðrir eru að fara að vinna sjálfstætt. Það eru tækifæri úti um allt og aðalmálið er að missa ekki móðinn.“

Í gær var frumsýning og svo fær hópurinn eins dags frí. Á morgun tekur við tíu sýninga maraþon. „Þetta verður svolítil harka en ótrúlega gaman. Við erum að klára þetta með trompi. Við lofum mikilli gleði og algjörri glimmersprengju á sýningunni. Ég held að allir ættu að geta skemmt sér vel.“

Hvað? Að eilífu

Hvar? Smiðjan, Sölvhólsgötu 13 Miðapantanir á svidslist@lhi.is

Hvenær? 26. apríl til 5. maí

Aðgangur ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×