Lífið

Kjólaklæðskeri vill ferðast á hundasleða

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Snædís er kulvís en vonar að búnaðurinn haldi á sér hita.
Snædís er kulvís en vonar að búnaðurinn haldi á sér hita. Fréttablaðið/GVA
„Ég rakst á keppnina fyrir tilviljun og fann strax að þetta var eitthvað sem mig langaði ótrúlega mikið að gera,“ segir Snædís Ylfa Ólafsdóttir, sem sækist eftir að taka þátt í 300 km hundasleðaleiðangri Fjällräven Polar.

„Þessi ferð er svolítið til þess að sýna að venjulegt fólk geti farið í svona ferðir með réttum útbúnaði og leiðsögn,“ segir Snædís en hún hefur enga reynslu af hundasleðum.

Hver þátttakandi fær sleða, sex hunda, útbúnað og einnig verður leiðsögumaður með í för.

„Þetta gerir enginn, hver fer í hundasleðaleiðangur til Norður-Noregs? Þetta er líka svo ólíkt öllu öðru sem ég hef gert,“ segir Snædís sem er menntaður kjólaklæðskeri og að læra landfræði.

Ferðin tekur fjóra daga og farið verður frá Noregi, yfir landamæri Svíþjóðar og að landamærum Finnlands. Hún segist mega búast við því að kuldinn fari niður í fjörutíu stiga frost.

„Mér er alltaf kalt og það hentar mér illa að búa á Íslandi. Ég verð bara að treysta á það að þessi búnaður komi til með að halda á mér hita,“ segir hún glöð í bragði.

Snædís er sem stendur í níunda sæti af 110, en aðeins tveir úr hennar flokki vinna sér inn þátttökurétt í leiðangrinum sem byrjar tólfta desember. Hægt er að kjósa Snædísi á vefsíðunni fjallravenpolar.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×