Fastir pennar

Kjarkmikill utanríkisráðherra

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Staða mála í Austurlöndum nær er snúin. Stundum virðist ómögulegt að henda reiður á þeim grimmdarlega veruleika sem þjóðir í þessum heimshluta búa við. Stöku sinnum birtast þó fréttir, sem vekja vonir um að þeir ógeðfelldu hagsmunir sem oft virðast ráða ferð, séu látnir víkja fyrir heilbrigðri skynsemi.

Sádi-Arabía er eitthvert versta harðstjórnarríki í heimi. Misskipting auðs er meiri en annars staðar á byggðu bóli. Mannréttindi eru fótum troðin allan daginn, alla daga. Farandverkafólki er þrælað út fyrir smánarlega umbun, tjáningarfrelsi er virt að vettugi, refsingar fyrir minnstu glæpi eru eins og aftan úr grárri forneskju og kvennakúgun er landlæg. Samt hefur Sádi-Arabía átt nokkurn veginn hnökralaus samskipti við ríki sem með réttu eða röngu telja sig kyndilbera frelsis, lýðræðis og mannréttinda í heiminum.

Svíar hafa átt heilmikið saman við Sádi-Araba að sælda. Samkvæmt sérstökum samningi hafa þeir selt stjórnvöldum í Riad vígbúnað fyrir himinháar fjárhæðir. Þetta hefur farið hljótt þar til nýlega. Á ferðinni eru gríðarlegir hagsmunir fyrir virt fyrirtæki í Svíþjóð. Sænski utanríkisráðherrann, Margot Wallström, lét það ekki aftra sér. Í harðri andstöðu við sterk öfl í atvinnulífinu lagði hún til að vopnasamningum yrði rift vegna yfirgangs harðstjóranna í Riad. Það gekk eftir. Í framhaldinu var sendiherra Sádi-Araba í Stokkhólmi kallaður heim.

Kornið sem fyllti mælinn var að ráðherrann átti að ávarpa fund Arababandalagsins í Kaíró. Tilefnið var stuðningur Svía við sjálfstætt ríki Palestínu. Út spurðist að ráðherrann hygðist nota tækifærið og segja harðstjórunum í Riad til syndanna. Engum togum skipti; boð bárust frá konungshöllinni í Riad um að hún skyldi tekin af mælendaskrá. Boðunum var hlýtt.

Full ástæða er til að taka ofan fyrir sænska utanríkisráðherranum. Dansinn við Sádi-Arabíu hefur dregið tennurnar úr Vesturlöndum í sambandi við Persaflóaríkin og raunar allan hinn múslimska heim. Þegar reynt hefur verið að vanda um fyrir öðrum harðstjórum í þessum heimshluta, sem margir hverjir hafa sannarlega þurft á umvöndun að halda, hefur með nokkrum rétti verið bent á, að sama gildi ekki fyrir Jón og séra Jón. Auðuga vininum í Riad sé heimilt það sem öðrum er bannað. Það endurspeglar hræsni sem veikir góðan málstað.

Svíar hafa látið til sín taka í Austurlöndum nær undanfarið. Nýlega gáfu þeir út stuðning við fullveldi Palestínu. Þar feta þeir í fótspor okkar Íslendinga.

Við vorum fyrst Norðurlanda til að stíga það skref í óþökk öflugra bandamanna. Það hefur orðið okkur til vegsauka. Kannski höfðum við eitthvað að segja um sinnaskipti Svía. Svo telja þeir vonandi kjarkinn í einhvern sem er tvístígandi.

Við vorum fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna við fall Sovétríkjanna. Þá sýndum við kjark. Þá sást að smáþjóðir geta verið rödd skynseminnar. Vitaskuld þurfa slík skref að vera vel ígrunduð. Góður leikur í flóknum samskiptum þjóða blasir ekki alltaf við – lausn einnar flækju getur skapað aðra.

En stundum er skynsamlegt að tefla djarft.






×