Skoðun

Kjaramál í brennidepli - Lífeyrir hækki einnig

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir skrifar
Það ætti ekki að vekja neina furðu að stéttarfélög geri kröfur um hærri laun og aukinn kaupmátt. Það sem hefur verið að gerast síðustu misserin þegar hálaunahópar hafa verið að bæta kjör sín verulega, getur ekki leitt til annars en að þeir sem telja sig hafa setið eftir geri kröfur um bætt kjör. Að halda því fram að þjóðfélagið fari kollsteypu vegna þess að þeir sem eru á lægstu töxtum fái launahækkun er frekar ótrúverðugt. Ekki er hægt að sjá að það hafi gerst við verulegar launahækkanir annarra.

Landssamband eldri borgara tekur heilshugar undir kröfur verkalýðssamtaka um hækkun lágmarkslauna. Það er öllum ljóst að það lifir enginn á þeim lágmarkslaunum sem gilda í dag og það sama má segja um þá sem hafa lítið meira en lífeyrir almannatrygginga til að lifa af. Landssambandið krefst þess að lífeyrir almannatrygginga taki sömu hækkunum og lágmarkslaun sem samið verður um í næstu kjarasamningum. Jafnfamt skal á það bent að enn er eftir að leiðrétta 20% kjaragliðnunina árin 2009-2013 sem lífeyrisþegar tóku á sig.

Við teljum að 300.000 kr. lágmarkslaun á þremur árum sé ekki ofviða íslensku atvinnulífi og ekki til þess fallið að ógna þeim stöðugleika sem við viljum varðveita. Það er ekki sanngjarnt að hinir lægst launuðu taki á sig ábyrgð á stöðugleika í verðlagi, en hærra launaðir aðilar ekki. Þá er það á allra vitorði að ekki er hægt að framfleyta sér sæmilega á þeim lágmarkslífeyri sem bætur almannatrygginga eru, og jafnvel þó fólk hafi allt að 75.000 kr. í tekjur frá lífeyrisstjóði.

Því staðan er sú að þær tekjur skerða bara bætur almannatrygginga vegna þeirra tekjutenginga sem gilda. Fólk er því fast í fátæktargildru vegna allra tekjuskerðinganna sem gilda um bætur almannatrygginga. Löngu er tímabært að einfalda kerfi almannatrygginga og draga úr tekjutengingum. Það á ekki síst við um þá sem núna eru á ellilífeyri og hafa ekki haft möguleika til að afla sér mikilla réttinda í lífeyrissjóðum. Með framfærsluuppbótinni sem sett var á í góðum tilgangi árið 2008 til að hjálpa þeim verst settu í kreppunni, hefur lífeyrissjóðakerfið beðið hnekki. Því framfærsluuppbótin skerðist 100% á móti lífeyrissjóðstekjum, þar til hún fellur alveg niður.

Fólk hefur lítinn hag af lífeyrissjóðstekjum, fyrr en þær eru komnar yfir 100.000 krónurnar. Aldraðir hafa engan verkfallsrétt en gera þá sjálfsögðu kröfu að þeir fái sömu hækkanir og samið verður um í þessari launadeilu. Þeir hafa unnið og skapað það þjóðfélag sem við búum við og eiga skilið betri kjör.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×