Skoðun

Kjaramál eru mannréttindamál

Guðjón Sigurðsson skrifar
Að lifa eða lifa af er tvennt ólíkt. Stundum fær maður á tilfinninguna að stjórnvöld reikni með að það að lifa af sé fullnægjandi aðstæður fyrir hluta þjóðarinnar. Ekki er staðið við gerða samninga um hækkun bóta eða samning um réttindi fatlaðs fólks sem skrifað var undir 2007. Þó einstaklingar séu almennt ekki að drepast úr hor hér á landi þá eru margir bótaþegar ansi nálægt því. Fólk bjargar sér og lifir af.

Að lifa er að geta valið

En það er krafa okkar Íslendinga að geta lifað í þessu frábæra landi. Að lifa er að mínu mati það að geta valið. Það að börnin mín geti stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Að eiga fyrir fjölbreyttum næringarríkum mat alla daga. Að eiga fyrir lyfjum. Að geta leitað mér læknisaðstoðar. Að eiga fyrir skólabókum og öðru sem börn þurfa í skólann. Auk annars sem nánast telst eðlilegt fyrir flesta. Það eru mannréttindi.

Eitt er að fá það sem yfirvöld telja til lágmarksframfærslu og hitt er svo gleði yfirvalda við að hækka hlut notenda við allt og ekkert. Hlutur sjúklinga við lyf hækkar, að leita sér lækninga hækkar og síðast en ekki síst okkar hlutur við útvegun lífsnauðsynlegra hjálpartækja fyrir okkur sem viljum lifa. Auðvitað gætum við lagst í bælið og lifað af, en þar skilur á milli vilja míns og vilja yfirvalda. Ég vel lífið.

Fækka til að gera betur

Minn draumur og ósk er um samvinnu við stjórnvöld til að fækka þeim sem þurfa bætur svo betur megi gera við þá sem geta ekki annað en verið á bótum. Þar er fyrst og fremst að gera raunverulegt átak í vinnu fyrir alla, hlutastörfum verður að fjölga, endurmenntun verður að vera fjölbreytt og að veita okkur tækifæri til þátttöku í lífinu.

Innleiðum/lögleiðum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er grunnurinn að svo mörgu. Meðal annars að við fáum tækifæri til sjálfstæðs lífs.

Lifið heil.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×