Lífið

Kirkjutröppuhlaup, drullubolti og brekkusöngur: „Það verður drullugaman“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hvert ætlar þú að fara um verslunarmannahelgina?
Hvert ætlar þú að fara um verslunarmannahelgina?
Nú er ein stærsta ferðahelgi að ganga í garð. Fjölbreytt dagskrá verður víða um land og ættu flestir að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Má þar nefna brekkusöng í Vestmannaeyjum, kirkjutröppuhlaup á Akureyri og fótboltamót í hnjédjúpri drullu.

Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, skíthæll og einn skipuleggjanda Mýrarboltans á Ísafirði, á von á miklu fjöri í bænum um helgina. „Það verður drullugaman eins og alltaf og svo eru tónleikar og böll á kvöldin og nóg um að vera í bænum. Þetta hefur lífgað mikið upp á bæjarlífið hérna,“ segir hann.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum má ekki gleyma en hún hefur verið haldin árlega frá þarsíðustu aldamótum. Þúsundir sækja hátíðina heim um hverja verslunarmannahelgi og verða fastir liðir á sínum stað; tónleikar á brekkusviðinu, flugeldasýning og auðvitað brekkusöngurinn sem Ingó veðurguð mun stýra.

Norður á Akureyri verður hátíðin ein með öllu, en þar má búast við fjölskylduvænu fjöri. Att verður kappi í hinu árlega kirkjutröppuhlaupi, leikhópurinn Lotta stígur á svið og óskalagatónleikarnir verða haldnir í Akureyrarkirkju. Á sama tíma verður Unglingalandsmót UMFÍ haldið í fyrsta sinn á Akureyri og búist er fjölmenni, enda eru keppnisgreinar fleiri en nokkru sinni fyrr.

„Öll Akureyri er undirlögð af alls konar litlum og stærri viðburðum. Það eru yfir tíu útitónleikar, tvö tívolí og svo mætti lengi telja, þannig að það er mikið að gerast á einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina,“ segir Halldór Óli Kjartansson, einn skipuleggjenda Einnar með öllu.

Fjölskylduhátíðin Neistaflug verður haldin á Neskaupsstað, en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1993. Þá má jafnframt nefna Kotmót Hvítasunnukirkjunnar í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og Sæludaga í Vatnaskógi. Innipúkinn verður haldinn í Reykjavík og er dagskráin með glæsilegasta móti, en hún er haldin á sömu stöðum og í fyrra, eða samtímis á tónleikastöðunum Húrra og Gauknum sem liggja báðir við Naustin í Kvosinni.

Þá verður veðurspá með ágætum og ekki stefnir í mikla rigningu. Hiti verður tíu til sextán stig, en fimm til tíu stig norðan- og austanlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×