Innlent

Kirkjuklukkur klingja klukkan fimm fyrir Aleppo

Þorgeir Helgason skrifar
„Með því að hringja kirkjuklukkunum erum við að vekja athygli á ástandinu í Aleppo í Sýrlandi,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, en kirkjuklukkur landsins munu hringja í þrjár mínútur klukkan 17.00 á hverjum degi í heila viku. Agnes segir söfnuði landsins hafa sýnt átakinu mikla velvild.

„Mér rann blóðið til skyldunnar, það er ekki hægt að vita af svona hryllingi án þess að aðhafast. Við viljum vekja fólk til umhugsunar um að þarna er fólk að þjást og okkur er ekki sama um það,“ segir Agnes. Hún segir að kristnu fólki beri skylda til að sýna fórnarlömbunum í Aleppo samhug.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.vísir/stefán
Ákveðið var að hefja átakið í dag vegna þess að dagur Sameinuðu þjóðanna er í dag og ljúka því þann 31. október, á siðbótardaginn. Átakið hófst í Finnlandi þann 12. október þegar Teemu Laajaselo, sóknarprestur Kallio-kirkjunnar í Helsinki, ákvað að hringja kirkjuklukkum til að minnast hinna látnu í Aleppo. 

Það vakti mikla athygli og er áætlað að rúmlega 500 kirkjur taki þátt í átakinu í dag. Þar á meðal kirkjur allra Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Suður-Afríku.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×