Innlent

Kirkjubyggingar liggja undir skemmdum vegna niðurskurðar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands segir að draga verði úr þjónustu kirkjunnar á næsta ári útaf niðurskurði. Margar kirkjur liggi ennfremur undir skemmdum þar sem ekki fæst fjármagn til standa undir viðhaldi.

Sóknargjöld voru skorin niður um 25 prósent á árunum eftir hrun og hefur kirkjan kallað eftir því að þessi niðurskurður verði leiðréttur. Í skýrslu sem sérstakur starfshópur um fjármál kirkjunnar skilaði til innanríkisráðherra í ágústmánuði síðastliðnum kemur fram að nauðsynlegt sé að hækka sóknargjöld um rúmar 600 milljónir. Í fjárlögum næsta árs er hins vegar gert ráð fyrir að sóknargjöld hækki um 100 milljónir.

Í bréfi sem Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands sendi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í lok síðasta mánaðar og fréttastofa RÚV birti í gær er niðurskurðurinn sagður vera óréttmætur og fullyrt að sóknir landsins muni ekki geta staðið af sér enn eitt ár niðurskurðar.

Biskup segir að nú þegar sé komið að þolmörkum. „Það hefur verið skorið niður til viðhalds í kirkjunum og kirkjurnar eru okkar menningarverðmæti og við þurfum að huga að þeim. Eins hefur verið skorið niður í starfinu vegna þess að söfnuðirnir, sóknirnar borga ekki laun prestanna heldur annarra starfsmanna. Organistans, æskulýðsfulltrúans, kirkjuvarðarins og svo framvegis. Þar hefur verið skorið niður eins og hægt er og nú er komið að þolmörkum. Það er ekki hægt að skera meira niður og hvaða skilaboð erum við að senda út í þjóðfélagið þegar við erum að skera niður barna- og æskulýðsstarf? Það held ég að sé ekki gott fyrir framtíð okkar hér á landi,“ segir biskup.

Hún segir að niðurskurðurinn hafi takmarkað þjónustu kirkjunnar og erfitt sé að fá fjármagn til að standa undir viðhaldi á kirkjubyggingum.

Liggja kirkjubyggingar undir skemmdum?



„Já það eru nokkrar sem liggja undir skemmdum og eftir því sem það lekur meira og gluggar skemmast meira og svo framvegis þá verða meiri skemmdir til framtíðar litið og dýrara þegar upp er staðið að gera við það,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×