Innlent

Kippur í matjurtaræktun í Reykjavík

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Matjurtareitir við Þorragötu eru uppseldir og er það til marks um aukinn áhuga borgarbúa á ræktun.
Matjurtareitir við Þorragötu eru uppseldir og er það til marks um aukinn áhuga borgarbúa á ræktun. vísir/stefán
Ásókn í matjurtagarða Reykjavíkur er meiri í ár en síðustu ár. Reykjavíkurborg hefur um það bil sex hundruð matjurtareiti til ráðstöfunar.

Borgarbúar eiga kost á að greiða tæpar fimm þúsund krónur í árgjald fyrir leigu á slíkum reit. Um er að ræða gömlu skólagarðana í borginni sem nutu mikilla vinsælda meðal grunnskólabarna á árum áður.

Sem dæmi um aukninguna má nefna að í Þorragötu í Vesturbænum eru 80 reitir leigðir út og í fyrsta skipti í nokkur ár er ræktað í þeim öllum.

„Ásóknin hefur aukist mikið og fleiri garðar leigðir út í ár en í fyrra,“ segir Guðný Arndís Olgeirsdóttir, yfirverkstjóri í þjónustumiðstöð borgarinnar.

Guðný segir einnig nærri því alla reiti leigða í Laugardal og Fossvogi. „Það er minni ásókn í matjurtagarðana í efri byggðum Reykjavíkur en þó er aukning,“ segir hún frá.

„Í Skammadal eru stærri garðar í boði. Það var mikill áhugi á matjurtaræktun í kreppunni, svo dalaði hann aftur. En nú er aftur stór kippur upp á við,“ segir Guðný.

„Fólk hefur greinilega gaman af því að vera úti við með fjölskyldunni og rækta, það gerir það líka fyrir samveruna trúi ég,“ segir Guðný. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×