Skoðun

Kínverska hagkerfið siglir lygnan sjó

Zhang Weidong skrifar
Nýlega hafa mér borist nokkrar spurningar um stöðu kínverska hagkerfisins. Hvernig er hægt að meta núverandi stöðu þess? Er það að hruni komið? Hvaða hlutverki hefur það að gegna í alþjóðahagkerfinu?

Mig langar að byrja á að fara yfir helstu hagtölur frá Kína það sem af er þessu ári. Verg landsframleiðsla jókst um 6,7% á fyrsta ársfjórðungi og hefur vaxið stöðugt á öðrum ársfjórðungi. Vísbendingar eru um að kornframleiðsla hafi aukist á sumarmánuðum og að hagnaður iðnframleiðenda hafi sömuleiðis aukist. Þjónustuiðnaðurinn vex hratt og vörusala eykst stöðugt. Vísitala neysluverðs hefur staðið í stað og lækkun á vísitölu framleiðsluverðs hefur gengið til baka. Jafnframt hefur notkun mengandi orkugjafa og losun mengandi lofttegunda minnkað. Þá ríkir mikill stöðugleiki á vinnumarkaði en á fyrstu fimm mánuðum þessa árs sköpuðust 5,77 milljónir nýrra starfa í borgum, sem uppfylltu 58% af markmiði atvinnusköpunar fyrir þetta árið. Atvinnuleysi í 31 af stærstu borgum Kína mældist aðeins 5,02% í maí síðastliðnum.

Vísitölur framleiðsluverðs, eftirspurnar, neysluverðs, framleiðslumagns sem og væntingavísitölur sýna merki um bata í kínversku hagkerfi. Þrátt fyrir áframhaldandi samdrátt í alþjóðahagkerfinu hefur kínverska hagkerfið verið innan marka efnahagslegs stöðugleika og hefur á heildina litið viðhaldið stöðugum vexti.

Helstu ástæður stöðugs vaxtar kínverska hagkerfisins á árinu má rekja til umbóta á stjórnkerfinu sem og áherslu stjórnvalda á aðlögun og nýsköpun á markaði. Umbæturnar miðuðu að dreifingu valds auk þess að straumlínulaga stjórnkerfið með því markmiði að bæta opinbera þjónustu. Aukin þjónusta hins opinbera hefur skotið styrkum stoðum undir frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun og sem hefur stuðlað að frekari markaðsþróun. Daglega eru stofnuð 40.000 ný fyrirtæki í Kína. Þar á meðal eru 13.000 fyrirtæki sem hafa með höndum umfangsmikinn atvinnurekstur og hafa ýtt verulega undir atvinnusköpun. Einkaneysla og þjónustuiðnaður eru sífellt að verða mikilvægari fyrir kínverska hagkerfið. Breytt neytendahegðun sést best með miklum fjölda nýrra notenda upplýsinga- og samskiptatækni, aukinni notkun snjallsíma og fjölda ökutækja sem knúin eru af nýjum orkugjöfum. Einnig er mikill vöxtur í afþreyingargreinum og velferðarþjónustu líkt og ferðamennsku, menningu, íþróttum, heilsueflingu og öldrunarþjónustu. Þjónustuiðnaðurinn hefur skilað mestum afköstum, er leiðandi í atvinnusköpun og er í dag drifkraftur kínversks hagkerfis. Einnig hefur orðið sprenging í hátækni framleiðslu, hágæða framleiðslu, netviðskiptum og öðrum nýtilkomnum atvinnugreinum. Með nýjum áherslum stjórnvalda spilar nýsköpun mikilvægt hlutverk í vexti hagkerfisins. Í þeim fyrirtækjum, atvinnugreinum og á þeim landsvæðum sem aðlöguðust snemma stefnubreytingunum vaxa ný fyrirtæki afar hratt sem sýnir jákvæða þróun. Í heildina séð hefur uppbygging kínverska hagkerfisins orðið betri og hafa gæði þess aukist til muna sem gefur góða raun fyrir áframhaldandi vöxt. Þegar lagt er í svo umfangsmikið umbreytingarferli eru skammtímasveiflur á vexti hagkerfisins óumflýjanlegar, en kínverskt hagkerfi mun þó ekki bíða skipbrot heldur mun kínverska hagkerfið sigla lygnan sjó.

Við gerum okkur grein fyrir að styrkja þarf grunnstoðir kínverska hagkerfisins ef knýja skal fram áframhaldandi vöxt. Því alþjóðlegt umhverfi er bæði flókið og krefjandi og ör vöxtur kínversks markaðar hefur valdið því að djúpstæð vandamál innanlands hafa hlaðist upp í gegnum árin. Mikilvægi utanaðkomandi eftirspurnar fyrir kínverska hagkerfið fer sífellt minnkandi. Lítil aukning er á fjárfestingum í fyrirtækjum og framleiðslu sem og að undirliggjandi áhættur í fjármálageiranum og í öðrum atvinnugreinum eru til staðar.

Tiltölulega fleiri vandamál hafa komið upp í atvinnugreinum með takmarkaða afkastagetu og í landshlutum með einsleita efnahagsuppbyggingu. Einnig hefur skapast mikill efnahagslegur þrýstingur vegna erfiðleika við að skapa jafnvægi milli efnahagslegra og þjóðfélagslegra þátta. Hins vegar höfum við nú þegar tekist á við fjölmargar áskoranir og sýnt bæði festu og hæfni til að sigrast á öllum þeim erfiðleikum sem frammi fyrir okkur standa. Það hefur sýnt sig í kínversku efnahagslífi að viljinn er erfiðleikunum ávallt yfirsterkari.

Kínverskt hagkerfi hefur forskot í alþjóðlegri samkeppni með stórt landrými, mikla vaxtarmöguleika og bjartar framtíðarhorfur. Virkt vinnuafl í Kína telur 900 milljónir manna en þar á meðal eru 170 milljónir með háskólamenntun eða sérfræðikunnáttu. Árlega útskrifast sjö milljónir manna úr háskóla og fimm milljónir úr verknámi. Ekkert annað ríki á jafnmarga sérfræðinga á sviði vísinda og Kína vermir annað sætið á meðal þjóða í rannsóknum og þróun, með yfir 18 billjónum íslenskra króna (150 milljörðum Bandaríkjadala) varið í rannsóknir og þróun á síðasta ári. Kína er annað stærsta hagkerfi heims, stærsta framleiðsluríki heims, lykilþjóð í viðskiptum með vörur og þjónustu og eftirsóknarverður áfangastaður fyrir erlenda fjárfestingu. Kínverski markaðurinn er einnig annar stærsti neytendamarkaður heims. Nokkur hundruð milljóna manna millistétt Kínverja vex ört. Íbúafjöldi í borgum eykst um tíu milljónir manna árlega og samtímis fækkar fátækum íbúum í sveitum. Kína er nýmarkaðsríki með mikla vaxtarmöguleika í framtíðinni. Allt þetta gerir Kína að stað þar sem einstaklingar hvaðanæva að fá tækifæri á að nýta hæfni sína og framtakssemi til þátttöku í uppbyggingu viðskiptalífsins. Mikil bjartsýni ríkir þegar litið er á núverandi stöðu kínverska hagkerfisins sem og þegar litið er til framtíðar, því hið gríðarstóra kínverska hagkerfi siglir lygnan sjó.

Kína mun í samstarfi við önnur ríki koma til með nýta þau fjölmörgu tækifæri sem hafa skapast með nýrri tækni- og iðnbyltingu til að knýja hjól efnahagslífsins í gang og þar með stuðla að efnahagslegum bata í alþjóðahagkerfinu. Með því móti geta ríki sameiginlega endurheimt efnahagslegan stöðugleika í framtíðinni með hagsæld alls mannkyns að leiðarljósi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí




Skoðun

Sjá meira


×