Erlent

Kínverjar leita spilltra flokksmanna erlendis

Atli Ísleifsson skrifar
Kínverskir embættismenn hafi verið að flýja landið með illa fengið fé allt frá lokum níunda áratugarins.
Kínverskir embættismenn hafi verið að flýja landið með illa fengið fé allt frá lokum níunda áratugarins. Vísir/Getty
Kínversk yfirvöld hafa hrundið af stað átaki til að ná spilltum embættismönnum og grunuðum efnahagsbrotamönnum sem flúið hafa landið síðustu ár. Átakið gengur undir nafninu „Refaveiðar 2014“ og er liður í baráttu yfirvalda gegn spillingu.

Í frétt Telegraph segir að spilltir, kínverskir embættismenn hafi verið að flýja landið með illa fengið fé allt frá lokum níunda áratugarins. Yfirvöld hafa ekki gefið upp hvaða upphæðir um ræðir, en talið er að embættismennirnir hafi komist yfir fjárhæðirnar með fjárdrætti og með því að þiggja mútur.

Liu Dong, sviðsstjóri í ráðuneyti almannaöryggismála, segir þessa menn hafa valdið landi sínu miklum skaða og sóað gríðarlegum skattpeningum. Segir hann yfirvöld munu ná mönnunum og láta þá svara til saka.

Frá árinu 2008 hafa 730 grunaðir verið handteknir í stærri efnahagsbrotamálum og færðir aftur til Kína frá 54 ríkjum. Á síðasta ári voru 762 færðir aftur til Kína vegna gruns um að hafa misnotað aðstöðu sína, auk þess að rúmlega 10 milljarðar yuan, eða um 186 milljarðar íslenskra króna, hafa verið gerð upptæk.

Átakið mun standa til ársloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×