Erlent

Kína og Rússland halda sameiginlegar æfingar í Suður-Kínahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínversk freigáta á siglingu.
Kínversk freigáta á siglingu. Vísir/AFP
Kína og Rússland munu halda sameiginlegar heræfingar í Suður-Kínahafi í september. Varnarmálaráðuneyti Kína segir æfingunum ætlað að styrkja samvinnu ríkjanna. Þeim sé ekki beint gegn öðrum ríkjum. Spenna á svæðinu er mjög mikil vegna tilkalls Kína af stærstum hluta hafsins.

Alþjóðagerðardómurinn í Haag segir Kínverja ekki hafa tilkall til svæðisins en Kína viðurkennir ekki niðurstöðu dómsins og segist ekki ætla að fylgja honum.

Kínverjar höfðu gert tilkall til svæðisins á grundvelli „níu strika línunnar“ sem byggir á kínverskum kortum frá 1947.

Yfirlit yfir þau svæði sem tilköll eru gerð til.
Tilkall Kína nær til um 90 prósenta Suður-Kínahafs, en þar að auki gera Taívan, Filippseyjar, Víetnam, Malasía og Brúnei tilkall til hluta hafsins. Kínverjar hafa byggt upp eyjar og herstöðvar á svæðinu til að styrkja kröfu sína.

„Um er að ræða hefðbundna æfingu á milli tveggja herafla, sem miða að því að styrkja samband Kína og Rússlands,“ er haft eftir talsmanni varnarmálaráðuneytis Kína á vef Reuters.

Á þessu ári hafa Kínverjar og Rússar haldið sameiginlegar heræfingar í Japanshafi og í Miðjarðarhafi.

Stjórnvöld í Kína hafa reglulega sakað Bandaríkin um að valda aukinni spennu með því að senda herskip á svæðið og að vera hliðhollir öðrum ríkjum á svæðinu. Bandaríkin segja hins vegar mikilvægt að halda siglingaleiðum um svæðið opnum, en gífurlega mikil umferð skipasiglinga fer um Suður-Kínahaf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×