Erlent

Kim Jong-nam var óttasleginn og vænisjúkur áður en hann dó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kim Jong-nam.
Kim Jong-nam. vísir/getty
Kim Jong-nam var seinustu ár óttasleginn og vænisjúkur, í felum frá einræðisstjórn Norður-Kóreu sem hálfbróðir hans, Kim Jong-un stýrir.

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef breska blaðsins í Guardian þar sem rætt er við náinn vin Kim Jong-nam, Anthony Sahakian, en þeir kynntust sem unglingar þegar þeir stunduðu nám við virtan alþjóðlegan skóla í Genf í Sviss.

Sahakian segir að það hversu opinn huga Jong-nam hafði hafi leitt til útlegðar hans erlendis og mögulega dauða hans en hann var myrtur á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu á mánudaginn í seinustu viku.

„Við ræddum stundum stjórnarfarið í Norður-Kóreu, hálfbróður hans og það sem var í gangi þar. Eitt get ég sagt og það var að hann hafði aldrei áhuga á valdi,“ segir Sahakian og bætir við:

„Hann vildi komast út. Hann hafði aldrei neinn metnað til þess að stjórna landinu. Hann samþykkti hvorki né kunni að meta það sem var í gangi þar.“

Dánarorsök Jong-nam liggur ekki fyrir en fjórir einstaklingar, tveir karlmenn og tvær konur, eru í haldi grunuð um morðið sem talið er að hafi verið skipulagt af yfirvöldum í Norður-Kóreu.

„Hann var hræddur. Hann var kannski ekki heltekinn af ótta en hann var vænisjúkur. Hann var pólitískt séð mikilvæg manneskja. Hann var áhyggjufullur, auðvitað var hann áhyggjufullur.“

Ítarlegt viðtal Guardian við Sahakian má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×