Handbolti

Kiel með öruggan fimm marka sigur á Barcelona

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel unnu 29-24 sigur á Barcelona á heimavelli í dag en þýska félagið tekur því fimm marka forskot inn í seinni leik liðanna sem fer fram á Spáni á laugardaginn.

Var um sannkallaðan stórleik að ræða í 8-liða úrslitunum en þarna tóku þýsku meistararnir undir stjórn Alfreðs á móti spænsku meisturunum með Guðjón Val Sigurðsson innanborðs.

Kiel var með frumkvæðið allt frá fyrstu mínútu leiksins en Börsungum tókst að halda í við heimamenn framan af. Var jafnt 8-8 þegar 23. mínútur voru búnar af fyrri hálfleik.

Þá settu heimamenn í gír í sóknarleiknum og náðu fjögurra marka forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks 16-12. Börsungar neituðu þó að gefast upp og náðu að minnka muninn í eitt mark á upphafsmínútum seinni hálfleiks.

Þá virtust leikmenn Kiel vakna aftur til lífsins og náðu þegar mest var sex marka forskoti í stöðunni 27-21 en Börsungum tókst að nýta sér liðsmuninn eftir tveggja mínútna brottvísun og minnka forskot Kiel niður í fjögur mörk á lokamínútu leiksins.

Kiel náði að bæta við einu marki í lokasókn sinni og fögnuðu leikmenn liðsins að lokum fimm marka sigri á Barcelona.

Dominik Klein var markahæstur í liði Kiel með níu mörk en í liði Barcelona var Kiri Lazarov atkvæðamestur með sex mörk. Guðjón Valur lauk leik með tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×