Handbolti

Kiel lagði PSG án Arons

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Alfreð
Alfreð vísir/getty
Þýskalandsmeistarar Kiel í handbolta lögðu franska stórliðið PSG 33-29 í toppleik A-riðil í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld í Þýskalandi.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel en Aron Pálmarsson lék ekki með liðinu vegna meiðsla.

Leikurinn var hin besta skemmtun. Hann var mjög hraður og mikið um glæsileg tilþrif auk þess sem mikil spenna var í leiknum þó Kiel hafi náð góðu forskoti seint í leiknum sem liðið lét ekki af hendi.

PSG var einu marki yfir í háfleik, 15-14, en Kiel var betra í seinni hálfleik. Vörn liðsins var frábær á köflum og hraðaupphlaupin gengu vel.

Spánverjinn Joan Canellas var mjög góður í leiknum og þá ekki síst í seinni hálfleik. Hann skoraði 9 mörk í leiknum og var markahæstur allra á vellinum. Marko Vujin skoraði 8 mörk og Domagoj Duvnjak 4.

Mikkel Hansen skoraði 8 mörk fyrir PSG og þeir Igor Vori, Xavier Barachet og Daniel Narcisse 4 mörk hver.

Kiel er á toppi riðilsins með 10 stig í sex leikjum. PSG er í öðru sæti með 8 stig en Kiel vann báða leiki liðanna í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×