Fótbolti

Khedira vill framlengja við Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landarnir Toni Kroos og Sami Khedira berjast um sæti í liði Real Madrid.
Landarnir Toni Kroos og Sami Khedira berjast um sæti í liði Real Madrid. vísir/getty
Sami Khedira hefur áhuga á að skrifa undir nýjan samning við Evrópumeistara Real Madrid. Þetta kom fram í viðtali við Stuttgarter Nachrichten á dögunum.

"Það væri mjög ánægjulegt ef við næðum samkomulagi," sagði Khedira sem hefur verið orðaður við brottför frá Real Madrid í nokkurn tíma, en Arsenal og Bayern München hafa verið nefnd sem líklegir áfangastaðir miðjumannsins sterka.

Khedira er búinn að ná sér af meiðslunum sem héldu honum frá keppni stærstan hluta síðasta tímabils og segist staðráðinn í að vinna sér fast sæti í liði Real Madrid á ný.

"Ég er kominn í gott líkamlegt form og þess vegna er ég bjartsýnn að ég fái fleiri tækifæri í liðinu," sagði Khedira sem þarf m.a. að berjast við samherja sinn úr þýska landsliðinu, Toni Kroos, um sæti á miðju Real Madrid.

Kroos, sem kom til Evrópumeistaranna frá Bayern München í sumar, hefur smellpassað inn í lið Real Madrid og Khedira bar lof á hann í viðtalinu.

"Hann hefur staðið sig frábærlega. Hann hefur verið minna en hálft ár hér, en hann er samt orðinn lykilmaður í liðinu."

Khedira kom til Real Madrid frá Stuttgart sumarið 2010 og hefur síðan þá leikið rúmlega 150 leiki fyrir spænska stórliðið. Khedira varð heimsmeistari með Þjóðverjum í sumar, en hann hefur leikið 53 landsleiki og skorað fimm mörk fyrir Þýskaland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×