Lífið

Keyrir vörurnar upp að dyrum

Rakel Hlín Bergsdóttir hefur fengið góðar viðtökur við hönnunarversluninni Snúran þar sem fást vel valdar vörur frá Norðurlöndum.
Rakel Hlín Bergsdóttir hefur fengið góðar viðtökur við hönnunarversluninni Snúran þar sem fást vel valdar vörur frá Norðurlöndum. Vísir/Pjetur
„Ég opnaði verslunina í lok mars og viðtökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum,“ segir Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Snúran.

Verslunin leggur áherslu á fallegar hönnunarvörur fyrir heimilið frá Norðurlöndum, aðallega frá Danmörku. Til dæmis var hún að skrifa undir einkaréttarsamning við sænska hönnunarfyrirtækið Prettypegs, sem hannar fætur undir húsgögn í alls konar gerðum.

„Ótrúlega sniðug og skemmtileg lausn sem gjörbreytir húsgagninu. Ég er alltaf að leita að nýjum merkjum og legg mikið upp úr því að vera með vörur sem hafa ekki áður fengist á Íslandi en sjást mikið í erlendum hönnunarblöðum,“ segir Rakel Hlín sem hefur reynslu af verslunarrekstri þar sem hún átti barnafataverslunina Fiðrildið í Skeifunni fyrir nokkrum árum.

Rakel Hlín er að flytja í húsnæði við Lækjartorg þar sem hún mun deila herbergi með tveimur öðrum, vefversluninni Nola.is og Kristbjörgu Maríu Guðmundsdóttir iðnhönnuði. Þá er auglýsingastofan Brandenburg í sama húsnæði.

„Markmiðið hjá mér er að fólk geti keypt vörur í næði heima hjá sér á aðgengilegri síðu sem er ekki of flókin. Svo legg ég mikið upp úr góðri þjónustu enda sé ég sjálf um að keyra vörurnar út á höfuðborgarsvæðinu, yfirleitt daginn eftir pöntun. Þannig fæ ég að hitta viðskiptavininn sem skiptir mig miklu máli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×