Lífið

Keyrir um í geimnum

Baldvin Þormóðsson skrifar
Róbert veit hvað honum finnst gott og hverju hann þarf að passa sig á.
Róbert veit hvað honum finnst gott og hverju hann þarf að passa sig á. mynd/skjáskot
„Sjálfur hef ég verið að gera tónlist síðan 2004 en færði mig yfir í rappið fyrir svona tveimur, þremur árum,“ segir hinn 25 ára gamli Róbert Sveinn Lárusson sem gengur jafnan undir nafninu MC Bjór. Spurður um listamannsnafnið segir Róbert það hafa komið sem hugljómun eftir langa vinnuvakt.

„Ég var búinn að vera að vinna í 48 tíma og kom síðan heim, settist niður og opnaði mér bjór,“ segir rapparinn. „Maður veit hvað manni finnst gott og hverju maður þarf að passa sig.“

Róbert er ekki óvanur því að koma fram á sviði en hann hefur rappað þó nokkrum sinnum opinberlega sem MC Bjór og einu sinni á Hóteli Valaskjálf á Egilsstöðum, þar sem hann kom fram með pönksveit sem hét Ákavíti. „Ég var nú bara að öskra og spila á gítar,“ segir hann og hlær.

Væntanlegt ölæði

Róbert er með fjöldann allan af lögum á heimasíðu sinni á Soundcloud en segir plötu vera væntanlega á næstu misserum sem mun bera nafnið Ölæði, en það þykir viðeigandi nafn á plötu með MC Bjór.

Ungi rapparinn blæs til tónlistarveislu á skemmtistaðnum Húrra í kvöld en tónleikarnir eru í tilefni nýs tónlistarmyndbands sem verður frumsýnt á tónleikunum við lagið Hrísgrjón.

„Það rappa tveir með mér í laginu, BRR og Bjarki B-Nice,“ segir Róbert. „Við erum bara að rölta um, að keyra í geimnum og svona hversdagslegt,“ segir hann en í myndbandinu bregður fyrir belju úr Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Ásamt Róbert koma fram á tónleikunum rappetturnar í Reykjavíkurdætrum og proggsveitin Caterpillarmen en Róbert hefur nokkrum sinnum komið fram með Reykjavíkurdætrum

„Mér finnst þær mjög skemmtilegar sem manneskjur og tónlistarmenn,“ segir Róbert. „Ég hef gaman af góðu rappi og þær vildu vera með.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 21.00 og verður enginn aðgangseyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×