Körfubolti

Keyrði þjálfara mótherjanna niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Budenholzer eftir byltuna.
Mike Budenholzer eftir byltuna. Vísir/Getty
Mike Budenholzer, þjálfari NBA-liðsins Atlanta Hawks, þurfti að yfirgefa leik liðsins í nótt eftir að hafa lent í slæmu samstuði.

Atlanta Hawks var að spila við New Orleans Pelicans á undirbúningstímabilinu en missti þjálfara sinn í lok fyrri hálfleiks.

Langston Galloway, bakvörður New Orleans Pelicans, var að reyna að bjarga því að boltinn færi útaf vellinum þegar hann hljóp Mike Budenholzer niður.

Budenholzer kastaðist yfir fyrstu röðina og inn í blaðamannaaðstöðuna á leiknum og þetta var því talsvert högg sem hann  fékk frá Langston Galloway.

Mike Budenholzer var einnig viðkvæmur fyrir því hann var með höndina í fatla eftir að hafa nýverið gengist undir aðgerð á fingri.

Menn þurftu að hjálpa Mike Budenholzer á fætur eftir áreksturinn. Hann sat síðan sárþjáður á bekknum í nokkrar mínútur og það leyndi sér ekki að karlinn fann mikið til.

Það fór svo á endanum að hann yfirgaf salinn og fór inn í klefa. Budenholzer kom ekki aftur inn í salinn og aðstoðarmaður hans Darvin Ham tók við sem þjálfari liðsins. Ham stýrði Hawks-liðinu til sigurs í leiknum.

Budenholzer talaði heldur ekki við fjölmiðla eftir leikinn en samkvæmt fréttum úr herbúðum Atlanta Hawks þá líður karlinum ágætlega. Hann fékk högg á rifbeinin en meiddist ekki alvarlega.

Mike BudenholzerVísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×