Viðskipti innlent

Keyptu hlutabréf á milljarð en seldu þau á 1200 kall

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísir/Pjetur
Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfu  Einars Sveinssonar og konu hans vegna endurálagningu ríkisskattstjóra. Hjónin höfðu á skattframtali ársins 2008 fært sölutap á hlutabréfum í breska félaginu Melrose PLC á móti söluhagnaði vegna hlutabréfa í Glitni.

Fram kemur í dómnum að þann 5. apríl 2007 hafi Einar og kona hans selt bréf sín í Glitni fyrir söluhagnað upp á 2,4 milljarða króna. Fjórum mánuðum síðar, þann 16. ágúst, keyptu þau svokölluð C-hlutabréf í Melrose fyrir 7 milljónir punda eða 964 milljónir króna. Glitnir hafði milligöngu um kaupin.

Tveimur dögum fyrir kaupin hafði hluthafafundur Melrose samþykkt að greiða út arð til hluthafa. Í tilfelli Einars og eiginkonu hans var arðurinn 7,3 milljónir punda sem samsvaraði 954 milljónum króna. Það var því hagnaður upp á rúm 300.000 pund en tapið nam 10 milljónum króna vegna gengisþróunar.  

Sama dag og arðgreiðsla vegna Melrose var greidd út seldu Einar og kona hans bréf sín í fyrirtækinu fyrir 10 pund, eða sem samsvarar 1.284 krónum.

Á skattframtali sínu árið 2008 drógu hjónin 964 milljóna króna tap sitt vegna sölu á hlutabréfum í Melrose frá 2,4 milljarða króna söluhagnaði er þau seldu bréf sín í Glitni. Með því lækkuðu þau þá upphæð sem greiða þurfti fjármagnstekjuskatt af niður í 1,5 milljarð króna.

Ríkisskattstjóri taldi hjónunum ekki heimilt að draga tapið frá hagnaðinum og sendi þeim því endurálagningu. Hjónin kærðu það til yfirskattanefndar sem staðfesti ákvörðun ríkisskattstjóra og fóru þau því með málið fyrir dómstóla.

Íslenska ríkið var sýknað af öllum kröfum og ber Einari og konu hans að greiða allan málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×