Erlent

Keypti fyrsta iPhone 6 og missti hann um leið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn átján ára Jack Cooksey var sá fyrsti til að kaupa iPhone 6 í Perth í Ástralíu þegar sala á snjallsímanum hófst þar í morgun. Cooksey var einn fjölmargra sem biðu næturlangt í röð til að geta keypt símann eins fljótt og mögulegt væri samkvæmt áströlskum miðlum.

Sjónvarpsfréttakona nokkur tók á móti Cooksey þegar hann kom út úr Apple-búðinni og bað hann um viðtal. Skjár nýja símans á að vera töluvert öflugri en skjár forvera sinna en margir eigendur eldri útgáfa eru með vænar sprungur á símum sínum eftir að hafa misst þá.

Það var nákvæmlega það sem gerðist fyrir Cooksey. Honum gekk frekar illa að opna öskjuna með símanum en þegar það tókst féll síminn á götuna. Mátti heyra nærstadda draga andann djúpt þegar það sá símann falla til jarðar.

Cooksey hélt andliti og voru fyrstu viðbrögð hans þau að í lagi væri með símann eins og sjá má í myndbandinu að ofan frá Perth News Today.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×