Viðskipti innlent

Keypt gjaldeyri sem nemur 3 prósentum af landsframleiðslu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Seðlabankinn hefur verið umsvifamikill í gjaldeyriskaupum undanfarna mánuði.
Seðlabankinn hefur verið umsvifamikill í gjaldeyriskaupum undanfarna mánuði. VÍSIR/GVA
Seðlabanki Íslands hefur keypt gjaldeyri fyrir 61 milljarð króna það sem af er ári og segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri gjaldeyrisviðskiptin hafa stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum Pen­inga­mál­um bankans sem gef­in voru út í dag.

Hrein gjaldeyriskaup Seðlabankas hafa numið um 33 milljörðum króna frá útgáfu Peningamála í maí síðastliðnum og um 61 milljarði króna á árinu í heild sem nemur um 3 prósentum af landsframleiðslu. Til samanburðar má nefna að vaxta­greiðslur í ár á er­lend­um skuld­um rík­is­sjóðs verða um tutt­ugu millj­arðar króna.

Það eru meiri kaup en síðastliðin þrjú ár þar á undan að meðtöldum greiðslum vegna framvirkra samninga en í fyrra keypti bankinn gjaldeyri fyrir einn milljarð umfram sölu.

Seðlabankastjóri segir að ef ekki hefði verið fyrir inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði hefði mátt gera ráð fyrir verulegri gengishækkun krónunnar og að bankinn þurfi sterkan gjaldeyrisforða sem sé ekki fjármagnaður með lántökum.

Gengi krónunnar miðað við vísitölu meðalgengis var rúmlega 206 stig á öðrum fjórðungi ársins sem er lítillega hærra en gert var ráð fyrir í maíspá bankans en gengið hefur þó haldist tiltölulega stöðugt á tímabilinu.

Það hafi lækkað lít­il­lega gagn­vart viðskipta­veg­inni geng­is­vísi­tölu og evru en um 2 til 2,5 prósent gagn­vart Banda­ríkja­dal og bresku pundi. Þá hafi gjald­eyr­isinn­streymi vegna komu er­lendra ferðamanna til lands­ins og minni af­borg­an­ir er­lendra lána inn­lendra fyr­ir­tækja og sveit­ar­fé­laga hafa stutt við gengið. Þó hafi vöruskiptajöfnuður landsmanna verið óhagstæður og Seðlabank­inn keypt tals­vert af gjald­eyri á markaði.

Sem fyrr byggist grunnspá bankans á þeirri forsendu að gengið haldist óbreytt út spátímann miðað við stöðu vísitölunnar þegar spágerð lýkur. Gangi það eftir verður vísitalan rúmlega 206 stig út spátímann sem er svipað og í maíspá bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×