Körfubolti

Kevin Durant fer til Golden State

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant og Steph Curry, verðandi samherjar hjá Golden State.
Kevin Durant og Steph Curry, verðandi samherjar hjá Golden State. vísir/getty
Kevin Durant, einn besti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta, mun ganga í raðir Golden State Warriors frá Oklahoma City Thunder. Durant greindi frá þessu í dag á vefsíðunni The Players' Tribune.

Samningur Durant við Oklahoma rann út í sumar og honum var því frjálst að semja við hvaða lið sem er í NBA-deildinni.

Durant ræddi við forráðamenn sex liða í NBA undanfarna þrjá daga: Oklahoma, San Antonio Spurs, Boston Celticws, Miami Heat, Los Angeles Clippers og Golden State.

Durant valdi á endanum Golden State sem varð NBA-meistari 2015. Talið er að Durant skrifi undir tveggja ára samning við Golden State að verðmæti 54,3 milljóna dollara.

Durant, sem er 27 ára, kom inn í NBA-deildina 2007 þegar hann var valinn annar í nýliðavalinu af Seattle SuperSonics sem flutti síðan til Oklahoma.

Durant hefur allar götur síðan verið einn allra besti leikmaður deildarinnar og var valinn verðmætasti leikmaður hennar 2014. Auk þess hefur hann fjórum sinnum orðið stigakóngur NBA. Durant er með 27,4 stig, 7,0 fráköst og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í NBA á ferlinum.

Oklahoma komst í úrslit Vesturdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili en tapaði í oddaleik fyrir verðandi samherjum Durants í Golden State.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×